Skírnir - 01.09.2001, Síða 77
SKÍRNIR
UM BERSERKI
341
því afgerandi áhrif á virkni hans, og auk þess einstaklingsbundin
„móttökuskilyrði" neytenda, andlegt ástand þeirra, mataræði
o.fl.85 Það þarf því ekki að koma á óvart að sögur þær sem um
ræðir eru afar misjafnar og greina frá áhrifum sem virðast bæði
geta verið mjög slæm (valdið heilaskaða eða dauða) og ánægju-
leg. Áhrifin koma í ljós 20-90 mínútum eftir inntöku, en sá tími
er háður skammtastærð.86 Þau geta m.a. falist í næmari skynjun,
þannig að hugarástand neytanda magnast; sorg verður dýpri,
gleði meiri, reiði heiftugri; tilfinninganæmi eykst bæði út- og
innávið og í kjölfarið getur fylgt opinberun á andlegu ástandi og
fólk sér líf sitt í nýju ljósi. Skynjun á litum, ljósi og birtu verður
skýrari, fólk heyrir „ofheyrnir" (hljóð á öðru tíðnisviði en vant
er), sér sýnir og tímaskyn þess breytist.87 Þessar lýsingar koma
vel heim og saman við þá staðreynd að berserkjasveppurinn var
notaður við trúariðkanir sjamana (töfralækna/vitka) í Síberíu og
þar um kring (allt frá Sömum í vestri til Korjaka í austri) og víð-
ar.88 Sums staðar á þessum slóðum annaði framboð náttúrunnar
ekki eftirspurn og af þeim sökum var verslað með berserkja-
sveppi, og fengust þeir þá oftast nær í skiptum fyrir hreindýr,
a.m.k. meðal Korjaka. Eftirspurnin var stöðug og mörg dæmi
85 Svo virðist sem sveppurinn hafi ekki einungis mismunandi áhrif frá manni til
manns, heldur getur hann einnig haft mismunandi áhrif á sama einstakling, allt
eftir aðstæðum og sálrænu ástandi viðkomandi. Menn geta þannig fundið fyrir
miklum áhrifum eins svepps einn daginn, en hins vegar orðið varir við lítil sem
engin áhrif af neyslu nokkurra sveppa í annað skipti. Sjá t.d. Lewin 1964:126.
Þessi margbreytilegu áhrif haldast að sjálfsögðu einnig í hendur við breytilega
efnasamsetningu sveppsins, sbr. Nyberg 1991:9 og 1992:72-73.
86 Ammirati 1985:167.
87 Sbr. t.d. Nyberg 1992:73.
88 Sjá t.d. Kaplan 1975:76-78; Fabing 1956:409-410; Hajicek-Dobberstein 1995;
Saar 1991:158-159; Schultes og Hofmann 1992:83-85 og Lewin 1964:124-129.
Sveppurinn er enn notaður á afmörkuðum svæðum í Síberíu, sbr. Nyberg
1992:74, sjá einnig bls. 79. Um notkun sveppsins í búddisma, sjá Hajicek-
Dobberstein 1995. Þar sem amimita muscaria hefur víða verið (er) notaður við
trúariðkanir hefur hann verið nefndur hinn heilagi eða guðlegi sveppur („the
sacred mushroom“/„the divine mushroom"). Menn hafa jafnvel trúað því að
sveppurinn sé gjöf guðs til mannfólksins og að neysla hans færi menn nær guð-
dóminum; hann sé náttúrulegur tengiliður mannsins, meðvitundarinnar og
guðs/guða. Sjá t.d. http://www.sirius.com/~holy/mushroom.html og ennfrem-
ur Allegro 1970.