Skírnir - 01.09.2001, Page 82
346
AÐALHEIÐUR GUÐMUNDSDÓTTIR
SKÍRNIR
og einbeiting stjórnist, líkt og aðrir þættir, af hugarástandi neyt-
anda og einbeitingu hans þegar sveppsins var neytt, þannig að sá
sem leitar svara við eigin vandamálum beini athyglinni inn á við, í
innhverfa íhugun eða leiðslu, en sá sem einbeitir sér að óvinum
sínum nái að skerpa einbeitingu sína sem leitar þá öll út á við, þ.e.
á andstæðinginn. Slík einbeitingarhæfni kæmi heim og saman við
þær fornu aðferðir sem notaðar voru meðal sjamana og gæti jafn-
vel bent til þess að þeir sem á annað borð kunnu að fara með
sveppinn (þ.e. voru „fjölkunnugir"), og þekktu til hinna fjöl-
breytilegu áhrifa hans, hafi getað nýtt sér kunnáttu sína í hernað-
arlegum tilgangi. Að minnsta kosti er hæpið að ganga út frá því
sem vísu að amanita muscaria hafi gert menn ófæra í bardaga.
Hér hefur verið lögð áhersla á þekkingu manna á sveppnum
sem forsendu berserksgangsins, þ.e. að nákvæm skammtastærð,
ásamt ákveðinni meðhöndlun, sjálfsþekkingu o.s.frv., geti valdið
honum. Vanþekking eða tilviljun getur að sjálfsögðu leitt til hins
sama, svo sem framangreind reynslusaga ber með sér, en reyndar
er ekki alltaf auðvelt að meta þá þekkingu sem neytendur búa yfir.
Svo er um tvær merkilegar sögur frá 19. og 20. öld af rússneskum
og sænskum hermönnum sem átu sveppi til að komast í „villt“
ástand, með þeim afleiðingum að þeir m.a. æddu um, „grenjuðu"
eða góluðu, bitu og froðufelldu. Fyrra atvikið átti sér stað meðal
sænskra herdeilda í átökum Svía og Norðmanna 1814 og var stað-
fest af liðsforingja. Seinna atvikið átti sér hins vegar stað í Ung-
verjalandi í lok síðari heimsstyrjaldar, meðal rússneskra hermanna
í Rauða hernum.106 Hvort sögur þessar beri vott um leifar af ber-
serksganginum - þ.e. að sögur um notkun sveppsins til að fram-
kalla berserksgang hafi lifað meðal alþýðunnar - skal ósagt látið,
en eins líklegt er að einhver viðkomandi hermanna hafi heyrt um
eða lesið kenningar 0dmans eða skoðanabræðra hans og ákveðið
að sannreyna þær.
að jafnaði málgefinn, eru máltaugar hans nú sívirkar, og því opinberar hann nú
leyndarmál sín óviljandi, að fullu meðvitaður um gerðir sínar ...“, sbr. von
Langsdorf 1972 (þýðing höfundar).
106 Sjá Breen 1999:89-90.