Skírnir - 01.09.2001, Page 109
SKÍRNIR HUGMYNDAHEIMUR ÞORV. THORODDSENS
373
Þorvaldur til „að geta dvalist áfram“ í Höfn „með styrkjum, sem
ég fæ hér“.59
Nú gat Þorvaldur helgað sig ritstörfum og einnig gat hann
flaggað riddaratitlinum í boðum í Höfn, þar sem hann hitti
„marga af helztu broddborgurum borgarinnar".60 Virðist þessi
velgengni, þar með taldar viðurkenningarnar sem Þorvaldur hafði
hlotið fyrir fræðistörf sín, hafa aukið honum bjartsýni.61 Þetta
kemur greinilega fram í greininni „Hugleiðingar um aldamótin",
sem birtist í Andvara 1901 og er byggð á fyrirlestrum sem hann
hélt hjá „hinu ísl. stúd. félagi og ísl. iðnaðarmannafélagi, um
ástand við fyrri aldamót borið saman við nú og ýmsar hugleiðing-
ar um ástand og horfur á Isl. nú“.62 Þorvaldur fer fremur jákvæð-
um orðum um stjórnmálaástandið á Islandi í greininni. „Æði-ólíkt
er það nú því er áður var, hve mikið alþýða tekur þátt í opinber-
um málum, og virðist mér [íslensk alþýða] gera það alveg eins
myndarlega eins og alþýða í öðrum löndum." Hún hefði fengið
góða æfingu í að ræða um „almenn mál“ í ýmsum nefndum og á
mannamótum og hefði þannig smátt og smátt „aukið greind sína“
og reynslu. Þrátt fyrir aukinn samfélagsþroska almennings taldi
Þorvaldur sig ekki hafa greint mikinn áhuga á stjórnarskrármál-
inu, nema ef vera skyldi „tvö síðustu árin, ef nokkuð er að marka
gauragang þann, sem var við síðustu [Alþingis]kosningar“. Þor-
59 Lbs 5020 4to, II; Lbs 2669 8vo; bréf dagsett 14. janúar 1900. Þorvaldur hafði
ekkert kennt frá því hann flutti til Hafnar 1895.
60 Lbs 5020 4to, II; bréf dagsett 22. apríl 1899.
61 Á árunum 1884-1909 hlotnaðist Þorvaldi aðild að vísindafélögum í Danmörku,
Svíþjóð, Belgíu, Þýskalandi og Englandi, þar sem hann var gerður að heiðurs-
félaga (honorary corresponding member) í Konunglega enska landafræðifélag-
inu 1898 og félaga (corresponding member) í Konunglega enska jarðfræðifélag-
inu 1902. Hann hlaut einnig gullverðlaun landafræðifélaganna í París (1895),
Danmörku (1899) og Bandaríkjunum (1907) og gullverðlaun Konunglega danska
vísindafélagsins 1902 (í bréfi til Ögmundar frá 27. febrúar getur Þorvaldur þess
að „Gullmedalían sem ég fékk var eigi frá Geogr. Selkab en frá Videnskabernes
Selskab og er mjög sjaldgæf"; Lbs 2669 8vo), auk þess sem honum var veittur
Cuthbert Peek-styrkur Konunglega enska landafræðifélagsins 1897. Þorvaldur
hélt minnisbók þar sem hann skráði allar viðurkenningar sem honum áskotn-
uðust um ævina (NKS 3011 4to, nr. IV).
62 Lbs 2669 8vo; bréf dagsett 3. mars 1901.