Skírnir - 01.09.2001, Page 119
SKÍRNIR HUGMYNDAHEIMUR ÞORV. THORODDSENS
383
að skemma félagið.89 Þorvaldi tókst ekki að sporna við heimflutn-
ingskröfunni og í bréfi til Ogmundar 2. maí 1911 segir hann sig
sáttan við heimflutninginn, enda yrði aldrei „friður við Rvkr.
deild, því heimastjórnarforingjar vilja fyrir alla muni ná í sjóð
vorn ... og sparka mér burt.“ Þorvaldur er mjög ósáttur við þetta
því að hann ætlaði
að koma töluverðu út af fræðibókum í Hafnardeild, en það gagnaðist mér
ekki fyrir ófriðinum, það er eins og mörg önnur vonbrigði seinni ára;
þykir mér það einna verst að safn það af ísl. fræðiritum með myndum,
sem ég ætlaði að gefa út fellur nú niður. Það hættir líka margt fleira en
Lýs. ísl. ... íslendingar hafa ljóslega sýnt að þeir kæra sig ekkert um mín
fræðistörf, rógur og augljósar lygar hafa verið bornar á mig í blöðunum,
en ekki hefir neinn með einni línu tekið svari mínu. Það er þá bezt þeir
hvíli sig á mér um stund. Það dregur líka úr manni allan kjark með að rita
á íslenzku þegar maður daglega hugsar um hið ógurlega ástand sem er á
íslandi í opinberum málum og hina miklu móralísku afturför sem pólitík-
in hefir skapað ... Það lítur út fyrir að fólk almennt á Islandi skynji það
ekki hve hættulegir tímarnir eru í alla staði. Eg var hinn mesti optimisti,
en er nú því miður farinn að örvænta um framtíð þjóðarinnar ...90
í öðru bréfi til Ögmundar, 12. nóvember sama ár, segir hann að nú
sé „Bókmf. deildin farin heim og eg losnaður við alt það stapp og
ómak, sem mér var svo vel launað eða hitt þó heldur“. Á árunum
1906-1911 varð Þorvaldur því að lúta í lægra haldi fyrir lýðræðinu
sem hann vantreysti svo mjög og má leiða getum að því að heim-
flutningsdeilan hafi gert hann enn andsnúnari því en áður.
Þótt Þorvaldur virðist við fyrstu sýn hafa haft lítil bein áhrif á
Islandi var hann svo sannarlega ekki áhrifalaus í Höfn og hefði í
89 Lbs 2103 4to.
90 Lbs 2669 8vo. Árið 1911 var Þorvaldur því orðinn mjög svartsýnn á lífið, til-
veruna og framgang vísindanna, þ.e. hann hafnaði viðteknum 19. aldar hug-
myndum um framfarir. Þessi viðhorf einkenndu hugmyndaheim heildar-
hyggjusinna í líffræði allt frá því að deilur þeirra við vélhyggjusinna (mecha-
nists) hófust um miðja 19. öld, en þær snerust m.a. um gildi eðlisfræðilegra
skýringa, þ.e. smættarhyggju, í líffræði. Heildarhyggjusinnar höfnuðu smætt-
arhyggju og lögðu megináherslu á verufræðilega sérstöðu líffræðinnar, en „fyr-
ir vikið voru þeir brennimerktir sem andstæðingar framfara" (Abir-Am
1985:389).