Skírnir - 01.09.2001, Side 128
392
ÚLFHILDUR DAGSDÓTTIR
SKÍRNIR
umræðan um myndefni, myndmál og myndskreytingar bæði auk-
ist og tekið nokkrum breytingum. Fræðimenn hafa löngum bent á
að vestrænt samfélag meti sjónina umfram önnur skilningarvit, en
umræðan hefur einnig beinst að auknu umfangi sjónræns áreitis.
Árið 1994 skrifaði bókmenntafræðingurinn W.J.T. Mitchell að 21.
öldin ætti líklega eftir að einkennast af glímunni við ímyndina.2
Mitchell talar um mynd-hverfingu (the pictorial turn) í heims-
mynd Vesturlandabúa og vísar í heimspekinginn Richard Rorty,
sem flokkar þetta sem hliðrun eða tilfærslu (shift) í sögu heim-
spekinnar.3 Mitchell ítrekar að „hver sem þessi mynd-hverfing sé,
ætti að vera ljóst að þetta er ekki afturhvarf til einfaldrar eftirlík-
ingar“ heldur „eftirmálvísindaleg, eftirtáknfræðileg [postlinguistic,
postsemiotic\ endurheimt myndarinnar sem flókins samspils
mynda-véla, stofnana, orðræða, líkama og myndmáls". Mynd-
hverfingin felur í sér þá vitund að það að horfa (að líta á, augna-
ráðið, augnatillitið, að fylgjast með, eftirlit og sjónræn ánægja) geti
verið eins margrætt viðfangsefni og hin fjölbreyttu form lesturs
(ráðning, afkóðun, túlkun o.s.frv.) og að sjónræna reynslu eða
‘sjónrænt læsi’ sé ekki hægt að skýra á forsendum textalesturs.4
Upplýsinga- og fjölmiðlasamfélag það sem við búum í er í vaxandi
2 Mitchell 1994:3.
3 Mitchell 1994:12. Þessi aukna áhersla á ímyndina á sér ýmsar orsakir að mati
Mitchells. Hún stendur t.d. í beinu sambandi við hugmyndafræði afbyggingar
(deconstruction), sérstaklega eins og hún birtist hjá Jacques Derrida í afbyggingu
stigveldisins milli hins skrifaða og talaða orðs, þar sem hann sýnir fram á hvern-
ig hið skrifaða orð er alltaf sýnilegt í töluðu máli. Mitchell vísar einnig til rann-
sókna Frankfurtar-skólans á nútíma, fjöldamenningu og sjónrænni miðlun, og
til kenninga Michels Foucault um vald og þekkingu sem afhjúpa skilin milli orð-
ræðu og sýnileika, hins sýnilega og hins segjanlega, sem hann telur þýðingar-
mikið misgengi í ‘sjónrænni stjórn’ (scopic regimes) nútímans.
4 Mitchell 1994:16. Þrátt fyrir þetta er orðræða Mitchells og annarra um mynd-
lestur ákaflega bundin orðfæri og myndmáli byggðu á greiningu á rituðu máli.
Gott dæmi er nýyrði Sigurjóns Baldurs Hafsteinssonar, ‘myndræða’, sem vísar
til hugtaksins orðræðu og stendur þannig í sterkum tengslum við talað og ritað
tungumál. Mitchell er enda sjálfur bókmenntafræðingur og svo er einnig um
marga þá sem fjalla um sjónræna menningu. í þessum sjónrænu fræðum er enn
verið að finna og móta orðaforða til að ná utan um fyrirbærið á eigin forsendum
þess, eins og Stafford (1996) leggur mikla áherslu á. Sjá einnig Kress og van
Leeuwen 1996. íslenskan er sérlega ósveigjanleg hvað þetta varðar og fátæk af
orðum sem vísa til þess að sjá og sýna.