Skírnir - 01.09.2001, Síða 131
SKÍRNIR MYNDANIR OG MYNDBREYTINGAR 395
rænum hætti.8 Þessa vélrænu tónlist blandar hún svo lifandi hljóð-
færum, aðallega klassískum strengjahljóðfærum. Þetta sambland
náði ákveðnu hámarki á disknum Homogenic (Einsleitni/Sam-
svörun) (1997), en þar fékk hún til liðs við sig íslenska strengja-
sveit, sem fylgdi henni síðan á tónleikaferðalagi í tilefni af útgáfu
disksins.
Tónlistarfræðingurinn Morten Michelsen skrifaði doktorsrit-
gerð um dægurtónlist með áherslu á tónlist Bjarkar, en hann álít-
ur tónlist hennar mjög sérstæða. I grein frá 1996, „The magic of
reality/the reality of magic“, segir Michelsen að tónlist Bjarkar sé
mjög samsett og einkennist af því að Björk grípi „tónlistarlega
búta og bita úr óvæntum áttum og noti þá á óvæntan hátt, en alltaf
svo að það sé tónlistinni mjög til framdráttar".9 Sem dæmi um
tónlistarlegar uppsprettur nefnir hann jazz, kvikmyndatónlist,
teknótónlist, danstónlist, salsa og popp. Hann leggur áherslu á að
þessi fjölbreytni í tónlist Bjarkar sé tilkomin vegna sérlega vel-
heppnaðs samstarfs hennar við áhugaverða og framsækna útsetj-
endur og tónlistarmenn, aðallega frá Bretlandi. Hann tekur dæmi
af laginu „Hyperballad“ sem einkennist af því að utan á tiltölulega
einfaldar laglínur sé hlaðið ólíkum stefjum og hljóðum. Þannig
einkennist tónlist Bjarkar oftar en ekki af mótsögnum og þver-
sögnum, sem koma t.d. fram í því að þótt tónlistin sé mjög fjöl-
breytt er alltaf ákveðinn fasti eða kjarni til staðar, sem er rödd
Bjarkar.
Það má segja að þessi samblöndun þversagna, einfaldleika og
fjölbreytni, eða þessi fjölröddun, sé einkenni á list samtímans,
hvort sem er í bókmenntum, kvikmyndum, myndlist, tísku eða
tónlist. Björk endurspeglar síðan þessa samsettu tónlistarsköpun í
ímynd sinni sem er að sama skapi hlaðin mótsögnum og þver-
sögnum og einkennist af samblöndun stíltegunda og áhrifa sem
ganga þvert á landamæri; landfræðileg og hugmyndaleg, jafnt sem
efnisleg - að því er lýtur að efniviði fatnaðarins. Hún hefur frá
8 Sjá Aston 1996.
9 Michelsen 1996:8. Michelsen var meðal þeirra sem héldu erindi á Bjarkarþingi í
Reykholti 16. ágúst 2000.