Skírnir - 01.09.2001, Page 133
SKÍRNIR
MYNDANIR OG MYNDBREYTINGAR
397
leiðsla, og því væri kannski réttara að tala hér um eins konar með-
vitaða einlægni, sem Björk skapar með barnslegri ímynd sinni.
Þessi barnslega ímynd tengist svo náið þeirri ímynd náttúrubarns
sem Björk heldur á loft, og nýtir sér þar (söluvænar/ferðamanna-
vænar) hugmyndir um Island sem villt náttúruland, land ‘hreinn-
ar’ náttúru, ‘frumkrafta’ og ‘upprunaleika’. Þessi ímynd er að
hluta til mótuð í tónlistarmyndböndum sem fylgja lögum sem gef-
in eru út á smáskífum, og eru með því sérstaklega mörkuð - og
markaðssett - til vinsælda. Auk þess birtist ímyndin á
diskaumslögum og í því margvíslega auglýsinga- og kynningar-
myndefni sem fylgir útgáfu hvers disks, myndum sem fylgja við-
tölum og svo framkomu tónlistarkonunnar sjálfrar á sviði og í
fjölmiðlum.
II
Sagan segir að Lars von Trier hafi viljað fá Björk í aðalhlutverkið
í mynd sinni Dansarinn í myrkrinu (2000) vegna þess að hann
hafði hrifist af leik hennar í tónlistarmyndböndunum.12 Hvað sem
til er í því þá er sagan sjálf nóg til að undirstrika mikilvægi mynd-
bandanna, ekki aðeins fyrir tónlist Bjarkar, heldur einnig fyrir þá
ímynd sem hún hefur skapað sjálfri sér og hefur jafnframt verið
sköpuð í kringum hana.13 Allt frá upphafi sólóferils síns hefur hún
12 Ekki má gleyma því að Björk hafði áður leikið aðalhlutverk í mynd, en það var
sjónvarpsmynd Kristínar Jóhannesdóttur, Glerbrot, frá árinu 1987. Eftir
reynsluna af því að vinna með Trier segist Björk hins vegar aldrei framar ætla
að leika í kvikmynd.
13 Rétt er að skýra aðeins hvernig umfjöllun mín um myndbönd Bjarkar tengist
henni sem listakonu. í greiningu sem þessari vill oft fara svo að listakonan renn-
ur saman við alla þá framleiðslu sem í kringum hana er, þar með talin tónlistar-
myndbönd. Því tala ég oft um ‘myndbönd Bjarkar’ líkt og hún skapi þau sjálf.
Það gerir hún auðvitað ekki, það eru aðrir sem búa myndböndin til og þá jafn-
framt þær ímyndir sem þar birtast af tónlistarkonunni. Þannig er ímynd henn-
ar alltaf mótuð af þeirri ímynd sem aðrir gera (sér) af henni, hvort sem það eru
aðdáendur eða fagfólk. Hins vegar hefur verið bent á að Björk er óvenju sjálf-
stæður listamaður og hefur - fær - venjulega mikið að segja um það efni sem
henni er tengt, og því er óhætt að ætla að hún hafi eitthvað að segja um gerð
myndbandanna. En eins og áður segir eru ímyndir í stöðugu samspili hver við
aðra og því fer fjarri að ég ímyndi mér að Björk sé eins konar alvaldur í sinni
ímyndasköpun, hvort sem það er fyrir tilstilli myndbanda eða annarra miðla.