Skírnir - 01.09.2001, Page 143
SKÍRNIR
MYNDANIR OG MYNDBREYTINGAR
407
og hleypur svo í burtu aftur. Hún er íklædd skósíðum hvítum kjól
og er með fjölda hnúta í hárinu. Á götunni og gangstéttinni geng-
ur lífið sinn vanagang, vegfarendur og ökumenn halda sínar leiðir.
Bakgrunnurinn virðist því tiltölulega ‘náttúrulegur’, borgin sjálf,
en með því að setja söngkonuna upp á bílpall er jafnframt áréttað
að borgin er notuð sem svið, borgarmenningin sjálf er svið en ekki
‘náttúrulegt’ umhverfi.
I „Violently Happy“ („Brjálæðislega hamingjusöm“) (Jean-
Baptiste Mondino) er sviðið hvítur einangraður klefi ætlaður geð-
sjúkum, þar sem Björk og fleiri dansa hvítklædd um og klippa hár
sitt og klippa niður bangsa. I „It’s Oh So Quiet“ („Það er allt svo
hljótt“) (Spike Jonze) er ekki um eiginlegt svið að ræða, en hins
vegar vísar það myndband til dans- og söngvamynda og sú vísun
skapar mjög greinilega sviðsetningu. Myndböndin „Army of Me“
(„Her af mér“) (Michel Gondry) og „Isobel“ (Michel Gondry)
eru ennfremur ættuð úr kvikmyndaheimum og vísa til tiltekinna
kvikmynda eða kvikmyndahefðar. „Army of Me“ minnir um
margt á vísindafantasíur, eins og t.d. Brazil (Terry Gilliam, 1985),
og „Isobel“ vísar til klassískra svarthvítra Hollywood-mynda, líkt
og lagið sjálft minnir á kvikmyndatónlist. Eins og í „It’s Oh So
Quiet“ gefa þessar kvikmyndavísanir tilfinningu fyrir sviðsetn-
ingu; hér er verið að leika hlutverk.
I öllum myndböndunum tekur Björk á sig ólík hlutverk, allt
frá því að vera dálítið viðutan húsmóðir í „Venus as a Boy“ yfir
í að vera hasarhetja í fantastískri bíómynd í „Army of Me“. I
stað þess að skapa eina ímynd, leika eitt hlutverk, er ímynd
Bjarkar ummynduð og umsköpuð í hverju myndbandi. Þessar
ímyndir stangast á, þær eru mótsagnakenndar, en samt alltaf
sjálfum sér samkvæmar. Hvort sem Björk er teiknimynda- eða
tölvuleikjavera, dans- og söngvamyndastjarna eða hælismatur,
þá er hver ímynd alltaf ákaflega mikil „Björk“. Því má segja á
þversagnakenndan hátt að með því að skapa svona margar
ímyndir af sjálfri sér takist henni ekki aðeins að ná ákveðinni
fjarlægð á ímyndirnar, heldur einnig að halda ákveðnum kjarna
af sjálfri sér í þeim - þótt sá kjarni sé kannski mjög fljótandi eða
jafnvel ólgandi.