Skírnir - 01.09.2001, Page 149
SKÍRNIR
MYNDANIR OG MYNDBREYTINGAR
413
IV
Vísindasagnfræðingurinn Donna Haraway skrifaði árið 1985
stefnuskrá sæborgarinnar. Þar heldur hún því fram að sæborgin
slíti af sér hefðbundin höft sem skilgreina tilveruna á einfaldan
hátt með andstæðulíkönunum karl/kona, menning/náttúra,
tækni/náttúra, náttúrulegt/gervi.35 Björk gerir einmitt þetta í
myndböndum sínum og stefnir ekki aðeins út úr þessu þrönga
kerfi, heldur stefnir því sjálfu í hættu - eins og sést af því hvernig
náttúruímynd íslands er í auknum mæli blönduð alls konar tækni
og hjáveruleika.
Á þennan hátt færir Björk ísland inn í nútímann jafnframt því
að halda íslenskum ‘einkennum’ eins og náttúrunni, bara ekki á
hefðbundinn hátt (hún er virk í náttúruvernd og sendi t.d. frá sér
yfirlýsingu vegna Fljótsdalsvirkjunar, en það er á hennar eigin for-
sendum).36 Björk hefur fyrst og fremst orðið ímynd ákveðinnar
óstöðugrar og villtrar náttúru, náttúru sem er bæði dularfull og
óhamin. Þetta samband dulúðar og náttúruafla kemur fram í því
að vísað er til Bjarkar sem álfs eða eskimóa, jafnframt því sem
henni er líkt við náttúruna sjálfa, t.d. í „Jóga“, þar sem hún tekur
bæði á sig ímynd íslendingsins, ein í hinni villtu sæbernáttúru
verður hún bæði að hinum eina Islendingi og að íslandi sjálfu,
eyju á hjara veraldar. En um leið og Björk hefur orðið að ímynd
landsins, hefur hún skapað því ímynd, haft áhrif á hugmyndir
35 Donna Haraway hefur verið brautryðjandi í því að tengja hið verkfræðilega
hugtak Clynes og Klines hugvísindum. Hún tók upp hugtakið sæborg og mót-
aði það á nýjan hátt, en hún segir að þegar líkaminn hefur aðlagað sig tækninni
sé einstaklingurinn orðinn sæborg. Samkvæmt Haraway erum við þegar sæ-
borgir í sæborgísku samfélagi, sem einkennist af gríðarlegri notkun tækja og
tóla. Sjá Haraway 1995 og Gray 1995. Stefnuskrá hennar frá 1985 var endur-
skoðuð og endurprentuð sem „A Cyborg Manifesto: Science, Technology, and
Socialist-Feminism in the Late Twentieth Century" í Haraway 1991a, og það
er sú grein sem ég vísa hér til.
36 Sjá „Álver er úrelt hugsun", Morgunblaðið, 26. nóvember 1999. f yfirlýsing-
unni segir m.a.: „Nú er ég persónulega ekki á móti virkjunum, en svona virkj-
un er eins og virkjanir sem voru gerðar fyrir 30-40 árum erlendis. Það er mjög
gamaldags hugsunarháttur að það þurfi að fórna náttúru til að fá peninga út úr
náttúrunni."