Skírnir - 01.09.2001, Page 159
SKÍRNIR
BYRON OG LISTIN AÐ DEYJA
423
má að þessi mikli lestur á sagnfræði hafi að einhverju leyti mótað
Byron sem sögulega persónu, því þar fann hann þær klassísku
fyrirmyndir sem mótuðu skapgerð hans og líferni. í því samhengi
ætla ég ræða síðustu daga Byrons í Grikklandi, en þar sækir hann
merkingu í ars moriendi-hefðina, eða listina að deyja.
Fyrsta bókin um ars moriendi á ensku var gefin út af William
Caxton árið 1490, en hann flutti prentlistina til Bretlandseyja.
Bókin hét Listin að kunna að deyja og varð fljótt óhemju vinsæl.
Hún sver sig í ætt við mannasiðarit þau sem ætluð voru hirð-
mönnum endurreisnartímans. Hún er leiðbeiningarit sem býr les-
andann undir allt það erfiði sem tengist því að deyja. Menn eiga að
tileinka sér listina á meðan þeir eru við fulla heilsu og beita henni
á banasænginni. Caxton einblínir á listina að deyja vel og ólíkt
ýmsum síðari tíma ritum er hvergi að finna vangaveltur um sálu-
hjálp í riti hans. Listin að kunna að deyja leggur því megináherslu á
að búa lesandann undir dauðastundina. Þannig er reynt að tryggja
að hinn dauðvona kveðji lífið með reisn.10
Byron gerði sér fyllilega grein fyrir að dauði sinn yrði á allra
vörum og hafði löngum áhyggjur af því hvernig hann myndi
bregðast við þegar á hólminn væri komið. Þannig sagði John Cam
Hobhouse (1786-1869), nánasti vinur Byrons, að skáldið hefði
eitt sinn beðið sig að hleypa engum nærri sér á banasænginni, af
ótta við að hann myndi verða sér til skammar.* 11
Þegar undirbúningur sá sem ars moriendi fylgir er hafður í
huga er það kannski engin furða þótt Leigh Hunt skyldi hafa ef-
ast um einlægni Byrons síðustu dagana í Missolonghi. Eins og
áður sagði var yfirleitt litið svo á að rómantísk einlægni væri
ósjálfráð, persónuleg og innhverf. Dauði Byrons var aftur á móti
heimssögulegur, því segja má að augu allra í Evrópu hafi hvílt á
honum. Byron vissi jafn vel og Parry, einn fyrsti ævisöguritari
10 Um þetta má m.a. lesa í bók systur Mary C. O’Connor, The Art of Dying Well:
The Development of the Ars moriendi. New York: Columbia University Press,
1942.
11 Lord Broughton: Recollections of a Long Life (í 3 bindum). Lundúnum: John
Murray, 1909, III, s. 59.