Skírnir - 01.09.2001, Side 197
SKÍRNIR
SMÁTT OG STÓRT í SAGNFRÆÐI
461
stöku dæmi eða atvik hafa sem rannsakandinn kafar ofan í. Er gildi
eða þýðing þeirra háð tengslum þeirra við víðara samhengi, þann-
ig að líta megi á þau sem „fulltrúa fyrir heild", eða tala þau þvert
á móti „sínu máli“, óháð slíkum tengslum?
Afstaða Sigurðar Gylfa til þessa álitamáls hefur tekið gagnger-
um breytingum frá því að hann birti ritið Menntun, ást og sorg
(1997) og félagssögugrein sína (1997-1998) og þangað til kaflinn
„Einvæðing sögunnar“ birtist í Molum og myglu (2000). I fyrri
ritsmíðunum fetaði hann í fótspor flestra míkrósagnfræðinga með
því að leggja áherslu á samspil einstaklings og samfélags, hins ein-
staka og hins almenna.29 í „Félagssögunni fyrr og nú“ lýsti hann
áliti sínu á þessu efni á eftirfarandi hátt: „Samhengi hlutanna, sem
að sjálfsögðu fer eftir rannsóknarefninu, er það sem öllu ræður. Ef
viðeigandi samhengi skortir verður aðeins um merkingarlitlar
sögur eða sagnir að ræða sem eru ekki líklegar til að varpa nýju
ljósi á fyrirbæri eða atburði í samfélaginu.“ (Félagssagan, bls. 30).
Þessu sjónarmiði var Sigurður Gylfi trúr í rannsókn sinni á bræðr-
unum tveimur, Halldóri og Níels frá Miðdalsgröf í Strandasýslu.
Gegn þessari skoðun snerist hann aftur á móti öndverður tveimur
árum síðar. Athugun á ástæðum þessara skoðanaskipta kann að
varpa ljósi á áhugaverð atriði varðandi tengsl hins smáa og stóra í
sagnfræði.
í umsögn um rit Sigurðar Gylfa, Menntun, ást og sorg, var á
það bent að sögupersónurnar, bræðurnir frá Miðdalsgröf, væru
sérstakari en svo að á dæmi þeirra yrðu „byggðar alhæfingar um
eðli íslenskrar alþýðumenningar."30 Engum blöðum er um að fletta
að höfundurinn hafði vænst þess að þau væru nýtanleg í því skyni.
Hér skal ósagt látið hvort þessi klípa hefur átt einhvern þátt í um-
ræddum sinnaskiptum Sigurðar Gylfa. Hitt er víst að í Molum og
29 Sjá t.d. Sigurð Gylfa Magnússon, Menntun, ást og sorg, bls. 26-31. - í einvæð-
ingargreininni undirstrikar Sigurður Gylfi réttilega að þetta sé skoðun lang-
flestra „fylgismanna einsögunnar" (bls. 132-133). Sjá um þetta efni Medick,
Weben und Uberleben in Laichingen, bls. 13-37.
30 Loftur Guttormsson, „Sigurður Gylfi Magnússon: Menntun, ást og sorg“,
Saga 36 (1998), bls. 318. Sjá ennfremur Guðmund Hálfdanarson, „Rannsóknir
í menningar- og hugmyndasögu 19. og 20. aldar“, Saga 38 (2000), bls. 196-199.