Skírnir - 01.09.2001, Page 254
518
GAUTI SIGÞÓRSSON
SKÍRNIR
Hér er því ekki á ferðinni andlitslaust vald eða hugmyndafræði, heldur
leiðir greining á endurritunum alltaf af sér spurningar um þá einstaklinga
og hópa sem standa að útgáfu eða þöggun tiltekinna texta. Til þess að lýsa
því samhengi sem verndarar starfa í, og því sem skilyrðir og réttlætir
starfsemi þeirra og ákvarðanir, leggur Lefevere ákveðinn skilning í hug-
takið hugmyndafraði. í meðförum hans er hugmyndafræði nokkurs kon-
ar safnheiti yfir gildismat, siðferði, pólitísk stefnumál og (einstaklings-
bundna eða samfélagslega) fordóma. Hugmyndafræði er því iðulega
ósögð, jafnvel bundin „almennri skynsemi" um það „hvernig hlutirnir
eiga að vera“. Með því að bera saman frumtexta og þýðingartexta má sjá
hverju sleppt er, og þannig greina hvað skipta þykir máli að mati þýðand-
ans og verndara þýðingartextans, hvað fær að vera með og hvað er útilok-
að.14
Jón Karl er nokkuð trúr þessari aðferð. Hann lítur á hverja endurritun
Njálu sem frumtexta, og leitast þannig við að gera grein fyrir þeim fjöl-
breyttu örlögum sem textum eru búin þegar þeir öðlast nýtt notagildi. I
báðum verkunum sýnir hann að Njála hefur dreifst í endurritunum með
því að verða að mörgum aðskildum textum. Eins og önnur verk sem telj-
ast klassísk hefur Njála ferðast um hin ýmsu „svið“ ritmenningarinnar
með því að hafa hamskipti, og er þannig endurrituð í útdráttum, yfirlits-
verkum, ritdómum, myndlist, ljóðum, kennslubókum, kvikmyndum og
leikgerðum. Jón Karl gerir sér ekki bara mat úr Njálu í þessu sambandi,
heldur nefnir hann líka dreifingu verka Halldórs Laxness, þar sem texta
hans er ekki aðeins að finna innbundna á stofuhillum, heldur einnig í
skólaútgáfum fyrir grunn- og framhaldsskóla, bókmenntasögulegum rit-
um um höfundinn og verk hans, bókmenntarýni, sviðssetningum á leik-
ritum hans og leikgerðum eftir skáldsögunum, ásamt kvikmyndum, út-
varpsleikritum og hljóðritunum. Einnig má tína til endurritanir sem ekki
bera höfundarnafn Halldórs en eru þó tengdar textum hans, allt frá fleyg-
um orðum sem enginn veit hvaðan koma, söngvum eftir ljóðum hans sem
eru orðnir almannaeign og persónum eins og Bjarti í Sumarhúsum og Jóni
Hreggviðssyni sem líkt og Gróa á Leiti hafa tekið sér bólfestu í íslensku
orðfæri. Að síðustu má svo nefna sögupersónuna „Halldór Laxness"
(HH 211). Textar Halldórs Laxness hafa dreifst svo víða og í svo mörg-
um endurritunum að það er beinlínis villandi að einblína á „frumtextana“
14 Lefevere kannar t.d. breytingarnar sem verða á dagbók Önnu Frank við þýð-
ingu úr hollensku á þýsku, einkum einföldun á málinu (þannig að það verður
barnslegra) og ýmsar „snyrtingar", t.d. á kynferðislegum ummælum og á lýs-
ingum á samskiptum gyðinga og Hollendinga við hersetulið Þjóðverja. André
Lefevere, „Translation: ideology. On the construction of different Anne
Franks,“ í Translation, Rewriting and the Manipulation of Literary Fame, bls.
59-72.