Skírnir - 01.09.2001, Side 259
SKÍRNIR
NJÁLUSLÓÐIR
523
norrænudýrkun m.a. hafa bæst við þann táknheim sem fyrir var í orð-
ræðu heimsveldisins um glæsta fortíð Breta og það „blóð“ sem þeim rann
um æðar (RNS 62), en það er ekki þar með sagt að útgáfa Dasents hafi
verið einhvers konar áróðursbæklingur. Hún féll einfaldlega inn í langt-
um stærra táknkerfi, sem að hluta til var beitt til þess að réttlæta nýlendu-
stefnuna. Með þessum hætti svipar aðferð Jóns Karls mjög til greininga
Rolands Barthes á táknfræðilegum undirstöðum hugmyndafræði, en þar
með fjarlægist hann þá efnishyggju um stofnanir og vald sem André
Lefevere leggur áherslu á. I ritum Barthes er hugmyndafræði fyrst og
fremst á sviði táknanna, og því eru textatengsl oft burðarstólpar hug-
myndafræðilega hlaðinna tákna (sem hann nefndi einnig „mýtur“ eða
goðsagnir). Textatengsl geta verið vettvangur andófs og uppreisnar gegn
viðteknum hugmyndum, en þau geta líka ýtt undir ráðandi hugmynda-
fræði. Þannig eru ýmsir „menningarlegir lyklar“ (e. cultural codes) til
marks um að helsta einkenni borgaralegrar hugmyndafræði er að gera
menningu að náttúru.2i Textatengsl geta því verið viðteknar tuggur, leið-
inleg og fyrirsjáanleg, rétt eins og þau geta skapað óvæntar tengingar og
margræðni í texta. Með endurtekningum, klisjum, staðalmyndum og við-
teknum hugmyndum (sem Flaubert nefndi „idées regues") getur doxa
(ráðandi hugmyndir) allt eins fengið að ráða eins og para-doxa, sem and-
æfir og grefur undan ráðandi venjum, hugmyndum og aðferðum.
Framandgerving, sem er arfur frá formalisma, skipar öndvegissess í
hugmyndafræðigreiningu Barthes, og Jóni Karli tekst oft afbragðsvel að
gera Njáluhefðina og íslenska bókmenntasögu eilítið framandi. Kaflinn
„Skyggnir spekingar" í Hetjunni og höfundinum er sérlega vel heppnað-
ur að þessu leyti, því að þar lýsir Jón Karl sambandi við bókmenntirnar,
sögupersónurnar og hefðina, sem er líklega sjaldgæft á okkar dögum.
Meðal annars ræðir hann um tilurð og viðtökur bókarinnar Drauma eft-
ir Hermann Jónsson. I henni er að finna nokkurs konar viðauka við Njáls
sögu sem Hermanni var lesinn fyrir í draumi af Katli úr Mörk, persónu
úr Njálu. Bókin kom út 1912 og rituðu mætir fræðimenn að henni inn-
gang og eftirmála (Haraldur Níelsson og Guðmundur Finnbogason).
Bókinni var almennt vel tekið af ritdómendum, þ.á m. Matthíasi
Jochumssyni, sem sá ekki ástæðu til að rengja vitnisburð Hermanns, þótt
hann trúði honum treglega (HH 88-90). Eins skrýtið og þetta allt virðist
stenst Jón Karl þá freistingu að henda gaman að, en heldur því þess í stað
fram að hér sé um að ræða sérstaka hefð í viðtökum á Njáls sögu sem
kenna má við dulræna skynjun (HH 80). Með tiltölulega einfaldri sögu-
legri framandgervingu snýr Jón Karl þannig upp á hefðar-hugtakið og
sýnir um leið að innan bókmenntasögunnar rúmast fleira en rithöfundar,
24 Roland Barthes, S/Z. Þýð. Richard Howard. New York: Hill and Wang 1974,
bls. 206.