Skírnir - 01.09.2001, Page 262
526
GAUTI SIGÞÓRSSON
SKÍRNIR
Þó að hann vísi til stríðandi fylkinga í samfélagi, listum og stjórnmálum
gerir hann þeim svo óljós skil að erfitt reynist að koma auga á hvaða máli
átökin um eignarhald á höfundinum (og um menningarlegt forræði)
skiptu, og hverjir áttu þar mest undir.
Menningarbaráttan sem birtist í Njáludeilunum á Alþingi var afdrifa-
rík, og einstaklingarnir og samtökin sem tóku þátt í henni áttu eftir að
marka djúp spor í íslenska menningarsögu. Ekki ætla ég að halda því fram
að Jón Karl geri sér ekki grein fyrir þessu, eða sé á einhvern hátt að reyna
að halda greiningu sinni á vegsauka „höfundarins" utan við pólitískt og
stofnanalegt samhengi, heldur vil ég benda á að með því að leggja svo
mikla áherslu á tákn dregur hann úr vægi stofnana, valds og annarra efn-
islegra áhrifaþátta sem oft er lagt mikið upp úr í endurritunarrýni. Segja
má að Jón Karl „sýni“ frekar en „segi frá“ sögulegu afstæði menningar-
hugtaksins og efnislegum undirstöðum þess. I Hetjunni og höfundinum
er þannig enginn skortur á dæmum um það að vegsauki „höfundarins"
hafi ekki orðið einungis af táknfræðilegum ástæðum, en greiningin endar
oft þar sem byrja hefði mátt á því að gera grein fyrir því hverjir verndar-
ar „höfundarins“ voru. Hér má nefna hnyttinn samanburð Jóns Karls á
tveimur „heimkomum“, komu styttunnar af Snorra Sturlusyni 1947 og
heimkomu Halldórs Laxness af Nóbelshátíðinni 1955:
í síðara skiptið var höfundinum ekki snúið frá vegna verkfalls og ekki
var móttökunefndin á hafnarbakkanum skipuð fulltrúum íslensku
borgaraflokkanna. Þess í stað voru það oddvitar Alþýðusambands ís-
lands og Bandalags íslenskra listamanna sem óskuðu Halldóri til ham-
ingju með Nóbelsverðlaunin í bókmenntum. Hetja þeirra og höfund-
ur var kominn heim. (HH 197)
Þegar glittir í sögulega greiningu sem þessa í Hetjunni og höfundinum
sést vel að Jón Karl hefði getað fært enn sterkari rök fyrir kenningu sinni
ef hann hefði gert skýrari grein fyrir þeim stofnunum sem vernduðu höf-
undinn, bæði á árunum fyrir Alþingisdeilurnar um fornritaútgáfu Hall-
dórs Laxness, sem og eftir útgáfu Brennunjálssögu. Hverjir voru verndar-
ar höfundarins og hvernig fór sá stuðningur fram?
Jón Karl greinir átök Halldórs og Jónasar einkum með hliðsjón af höf-
undarhugtaki íslenska skólans. Stóri vandinn sem íslenska skólanum,
Halldóri Laxness og íslenskum rithöfundum almennt virðist hafa verið á
höndum á fjórða og fimmta áratugnum, er að „höfundum“ (í víðum
skilningi) var ekki búinn sá öndvegissess í virðingarstiga íslenskrar menn-
ingar sem síðar varð. íslendingar áttu sér mikinn höfuðstól í fornbók-
menntunum en skorti menningarlegar forsendur til þess að ávaxta hann í
formi nútímalegra bókmennta, myndlistar og tónlistar. Jón Karl bendir á
að íslenski skólinn endurskilgreindi þá gullöld sem Jónas Hallgrímsson
og Jón Jónsson Aðils höfðu tímasett á söguöld. Þessi hugmynd gagnaðist