Skírnir - 01.09.2001, Síða 264
528
GAUTI SIGÞÓRSSON
SKÍRNIR
miðju hins íslenska menningarkerfis. [...] Feril Laxness, einkum eftir
að hann fékk bókmenntaverðlaun Nóbels 1955, má túlka sem sönnun
fyrir menningarlegri gullöld mikilla listamanna á íslandi í nútímanum.
(RNS 153)
Nóbelsverðlaunin tryggðu Halldóri öndvegissess innan íslensks „menn-
ingarkerfis", og þar með þurftu íslendingar ekki lengur að beita fyrir sig
fornsögunum í anda Jóns Hreggviðssonar, sem fannst að „ætti hann slíka
bók þá mundi hann óðar senda hana kónginum og greifunum gefins til
sannindamerkis að hér á íslandi hafi þó einusinni verið til fólk“.26 Með
verðlaununum var íslensk menning viðurkennd að gæðum sem fullgild
samtímamenning, og sigur höfundarins tryggður.
Frá sjónarhóli táknfræði er þessi kenning trúleg, en eins og áður segir
þyrfti að gera skilmerkilegri grein fyrir þeim verndurum sem studdu við
bakið á „höfundinum". Stofnanirnar sem gerðu höfundinn að þunga-
miðju íslenskra bókmennta, skilgreindu einnig „menningu" fyrir hönd
þjóðarinnar. Hér má nefna Menningarsjóð, Þjóðvinafélagið og Mál og
menningu, og síðar Almenna bókafélagið sáluga, allt stofnanir sem mót-
uðu íslenskan menningarheim á sínum tíma. Ennfremur gefur Jón Karl
lítinn gaum að því hvaða tengsl voru milli stjórnmálaflokka, félagasam-
taka (t.d. verkalýðsfélaga) og slíkra menningarstofnana. Þó glittir endrum
og sinnum í slíka greiningu, t.d. þegar sagt er frá því að íslenskir borgara-
flokkar hafi brugðist hart við þegar Dagsbrúnarmenn í Reykjavík neituðu
að skipa upp Snorrastyttu Vigelands fyrir hátíðina 1947, en ekki er gerð
kerfisbundin grein fyrir slíkum tengslum menningar, atvinnu og stjórn-
mála. I The Rewriting of Njáls Saga er þó að finna slíka greiningu. í kafl-
anum „Icelandic Saga Laws: Patronage and Politics" koma fram pólitísk-
ar skýringar á því hvaða verndarar það voru sem deildu um útgáfurétt á
Njálu. Þar bendir Jón Karl á að átök Jónasar frá Hriflu og sósíalista höfðu
staðið frá 1930, þegar Kommúnistaflokkur Islands var stofnaður. Jónas
varð snemma einn helsti andstæðingur kommúnista, og síðar brást hann
við stofnun Máls og menningar með því að koma á útgáfusamstarfi milli
Menningarsjóðs, sem rekinn var af menntamálaráðuneytinu, og Þjóð-
vinafélagsins. Hann kom m.a. á sama áskriftarkerfi og Mál og menning
notaði. Yfirlýst stefna Jónasar var að veita kommúníska áróðrinum sem
Mál og menning dreifði, að hans mati með fjárstuðningi beint frá
Moskvu, öflugt mótvægi (RNS 132). Því taldi Jónas ljóst að með útgáfu
Halldórs Laxness á Laxdæla sögu væru helgirit íslensks þjóðernis á leið í
hendur óþjóðlegra kommúnista sem ætluðu sér að endurrita þau eftir
fyrirskipunum frá sjálfu Alþjóðasambandi kommúnista, Komintern, sem
hafði höfuðstöðvar í Moskvu (RNS 133). Viðbrögð flokksmanna hans á
26 Halldór Laxness, Islandsklukkan, bls. 37-38. Tilvitnun úr HH, bls. 18.