Skírnir - 01.09.2001, Page 265
SKÍRNIR
NJÁLUSLÓÐIR
529
Alþingi haustið 1941 voru að leggja fram frumvarp til laga um eignarhald
ríkisins á höfundarrétti allra íslenskra texta ritaðra fyrir 1400. Frumvarp-
ið varð að lögum vorið 1942, en áður en það gerðist tókst Halldóri
Laxness og útgefendunum Ragnari Jónssyni í Smára og Stefáni Ogmund-
arsyni að gefa út LaxcLæla sögu. Þá storkuðu þeir hinni nýju löggjöf með
útgáfu Hrafnkels sögu Freysgoða að hausti. Þegar Ragnar og Halldór
lýstu því síðan yfir árið 1943 að þeir ætluðu að gefa út Njálu, með leyfi
menntamálaráðherra, lögðu þrír fylgismenn Jónasar á Alþingi til að ríkið
gæfi út sína eigin Njálu til höfuðs Brennunjálssögu Halldórs. Hér eru
augljós tengslin milli stjórnmálaflokka, menningarstofnana, einstaklinga
og útgáfufyrirtækja, og Jón Karl gerir ágæta grein fyrir því af hverju
Jónasi frá Hriflu var illa við Halldór Laxness og það sem hann stóð fyrir,
einkum kommúnistaandúð Jónasar og sannfæringu hans um að Kom-
intern myndi fjarstýra fornsagnaútgáfu Halldórs (RNS 132-33). Þetta er
mjög gagnleg tenging og skýrir af hverju Kristinn E. Andrésson og fleiri
þingmenn Sameiningarflokks Alþýðu - Sósíalistaflokksins snerust til
varnar Halldóri.
Þó að The Rewriting of Njáls Saga bæti þannig að nokkru leyti upp
það sem á vantar í greiningu á hlutverki menningarstofnana í Hetjunni og
höfundinum, er í hvorugri bókinni rætt markvisst um hið ólíka menning-
arlega gildismat sem Jónas og Halldór eru látnir persónugera. Þó er að
finna atrennur að slíkri skýringu í báðum bókum: í Hetjunni og höfund-
inum virðast pólitískir flokkadrættir fyrst og fremst skilja þá að, en í The
Rewriting ofNjáls Saga eru átök þeirra talin snúast um yfirráð yfir tákn-
rænum auði (e. symbolic capitaí). Vandinn virðist mér í báðum tilvikum
vera sá að Jón Karl stýrir framhjá „menningu" og því hvaða gildi íslensk-
ur menningararfur (og þar af leiðandi nútímamenning) hafði í augum
hinna stríðandi fylkinga. I stað þess að gera stuttlega grein fyrir því gild-
ismati sem réð ferðinni í deilum Halldórs og Jónasar grípur Jón Karl til
almennari greiningar á táknrænum auði í The Rewriting of Njáls Saga.
Hann segir Jónas hafa litið á fornsögurnar sem táknrænan auð, og sam-
kvæmt því væri gildi þeirra viðhaldið með því að hið opinbera sæi um
ódýra og góða útgáfu, en ekki með því að einkaaðilar gæfu þær út í gróða-
skyni (RNS 124). Þetta er eflaust rétt, en hér býr meira undir. Mér sýnist
nauðsynlegt að gera frekari grein fyrir þeim skilningi sem lagður var í ís-
lenska menningu á þessum árum, af því að menningin var þegar orðin að
bitbeini áður en fornsagnaútgáfa Halldór Laxness kom til kasta Alþingis.
Það grillir í þessa forsögu nokkru aftar í bókinni þegar Jón Karl nefnir
það að illindin milli Sigurðar Nordals, helsta ráðgjafa Halldórs við útgáfu
Brennunjálssögu og Grettis sögu, og Jónasar frá Hriflu voru ekki ný af
nálinni árið 1942, heldur mátti rekja þau aftur til tengsla Sigurðar við út-
gáfufélagið Mál og menningu: