Skírnir - 01.09.2001, Síða 270
534
GAUTI SIGÞÓRSSON
SKÍRNIR
í nafni alþýðunnar, og nýtingu hans til frekari listsköpunar, storkaði sam-
fylkingin kringum Mál og menningu þeirri tegund þjóðernishyggju sem
Jónas frá Hriflu stóð fyrir, sem virtist líta á „menninguna“ sem safn dýr-
gripa sem ekki mætti hreyfa við og halda bæri frá almúganum. Nýja höf-
undarhetjan varð ekki bara möguleg af því að henni hafi verið sköpuð
táknfræðileg skilyrði innan íslensks „menningarkerfis“, heldur líka af því
að henni voru veitt stofnanaleg skilyrði af breiðri samfylkingu alþýðu-
fólks, listamanna, rithöfunda og menntamanna, m.a. þeirra sem stóðu fyr-
ir stofnun Máls og menningar. Deilurnar um fornritaútgáfurnar á Alþingi
bera vott um langtum víðtækari átök um það hvað teldist íslensk menn-
ing og hvað mætti gera við hana. Kannski má segja að þegar mannfjöld-
inn á hafnarbakkanum fagnaði Halldóri Laxness eftir Nóbelshátíðina
1955 hafi um leið verið fagnað sigri í baráttunni um íslenska menningu,
staðfestingu hugmyndarinnar um jafngildi íslenskrar nútímamenningar
og hins sögulega arfs. Þetta var ekki bara sigur höfundarins yfir hetjunni,
heldur sigur þeirra hópa og stofnana sem háð höfðu baráttuna með út-
gáfustarfsemi, ritstjórn, nefndasetum, ræðuhöldum, blaðaskrifum, fjár-
veitingum, kosningum, þingsetum og ótal annarri starfsemi sem telja má
hinn efnislega grundvöll hugmyndafræði, valds og menningarlegrar
verndunar.
í stuttu máli sagt beinast efasemdir mínar um aðferðir Jóns Karls að
þeirri textahyggju urn endurritanir sem einkennir verk hans. I greining-
unni á því hvernig höfundurinn veltir hetjunni úr sessi í hefðarröðun ís-
lenskrar menningar er áherslan lögð á táknfræðilegar breytingar, án þess
að tillit sé tekið til þeirra stofnanalegu og pólitísku breytinga sem urðu á
notkun menningarhugtaksins í íslensku mennta- og bókmenntalífi, sem
og þess sem var að veði í menningarlegum átökum. Svo virðist sem tákn-
fræðileg skilgreining hans á menningu takmarki svið endurritunarrýni við
tákn og texta, án þess að nægjanlegur gaumur sé gefinn að sögulegum að-
stæðum. Táknfræði sem slík er ekki vandamálið, heldur sýnist mér texta-
bindingin valda því að út úr myndinni falla efnislegir burðarásar tákn-
anna, nánar tiltekið menningarstofnanirnar sem sögupersónur Jóns Karls
voru á sínum tíma fulltrúar fyrir.
Það er fengur bæði að Hetjunni og höfundinum og The Rewriting of
Njáls Saga fyrir íslenska bókmenntafræði, einkum fyrir fræðimenn sem
annt er um að bókmenntir verði áfram taldar mikilvægt viðfangsefni. Eft-
ir því sem kvikmynda- og menningarfræði öðlast veigameiri sess í ís-
lenskri umræðu eru bækur sem þessar alger nauðsyn, því að þær sýna
fram á hvernig tengja má íslenska bókmenntasögu við önnur táknkerfi og
auka þar með skilning á hlutverki bókmenntanna. Þess vegna vona ég að
Jóni Karli takist með bókum sínum að þýða endurritun og táknfræði inn
í aðferðaforða íslenskra bókmennta- og menningarfræðinga. Þar að auki
þykir mér mikill akkur í þeim framsetningarbrögðum sem er að finna í