Skírnir - 01.09.2001, Síða 274
538
KRISTJÁN KRISTJÁNSSON
SKÍRNIR
ari tímum. Ástæðan er í senn sú að heimspekingar, uppeldis- og sálfræð-
ingar hafa rannsakað meir en áður áhugahvöt fólks og atferlisvaka (moti-
vatiori) og svo hin að þær tvær meginstoðir sem svör við spurningunni
góðu hvíldu á, sögulega séð, eru sagðar hafa gliðnað eða brostið. Þær
stoðir voru hugmyndirnar um guð sem löggjafa siðferðisins og um
dygðablóðið, hinn dygðum prýdda mann, sem siðferðilega fastastæðu og
fyrirmynd. Sú skoðun hefur að minnsta kosti lengi klingt í eyrum að í lok
miðalda hafi siðfræðin lent í réttlætingarkreppu sem hún hafi tæpast rétt
sig úr enn. I fornöld reiddu menn sig á hugmynd um manninn sem veru
með fastmótað náttúrulegt og frumspekilegt eðli, veru sem þar með bar
siðferðilega að tileinka sér staðlað dygðasafn, og með kristninni renndi
svo hlýðni við boð almáttugs löggjafa nýrri stoð undir siðferðið, ýmist til
hliðar við eða í stað hinnar eldri. Á upplýsingaröld skriðnaði hins vegar
undan hugmyndinni um meðfædda eðliskosti og trú á löggjafarvald af
himnum ofan þvarr.3 Hvað gat þá lengur hindrað siðslekju, ef ekki algjört
siðrof, hvað knúði menn lengur til að gefa boðum siðferðisins gaum?
Voru ekki öll slík boð dauð heilafylli fremur en veitul hugsjónalind?
Nú er það vitaskuld ekki svo að eftir lok miðalda hafi fólk almennt
lagst á sveif tómhyggju eða siðleysis. Siðferðið hélt áfram að móta hugar-
far og hátterni flestra - og guðfræðileg siðfræði var vissulega ekki dauð úr
öllum æðum. En heimspekingar reyndu nú yfirleitt að réttlæta siðferðið
með öðrum hætti en fyrr, leita nýrra ástæðna fyrir því að breyta siðferði-
lega. Bók Loga fjallar um slíkar réttlætingarleiðir, kosti þeirra og galla.
Áður en lengra er haldið er ekki úr vegi að reyna að átta sig, með einfaldri
skýringarmynd, á eðli og sambandi helstu réttlætingarleiða nútímans.
Þótt myndin hvíli að mestu á flokkun Loga sjálfs er ekki víst að hann tæki
undir þau heiti sem ég hef valið leiðunum né röðun einstakra heimspek-
inga er ég leyfi mér að taka sem dæmi (sumir þeirra koma alls ekki við
sögu í bók hans). Myndin er þannig fremur sett upp lesandanum til gam-
ans og glöggvunar, framhaldsins vegna, en sem hluti af þaulhugsaðri
flokkunarfræði (sjá næstu síðu).
Formlegu ástæðurnar gera ráð fyrir því að réttlæting siðferðisins hljóti
að felast í formgerð fremur en efnislegu inntaki: samkvæmt skynsemis-
hyggjunni er það formgerð þeirra skynsemisraka sem notuð eru til rétt-
lætingarinnar en samkvæmt háttarhyggjunni formgerð þess háttar eða að-
ferðar sem notuð er til að komast að tilteknum siðferðilegum niðurstöð-
um þannig að þær séu sanngjarnar/réttlátar. Skynsemishyggjan verður
3 Þetta er meginstefið í hinni margfrægu bók Alasdairs Maclntyre, After Virtue
(Notre Dame: University of Notre Dame Press, 1981). Sjá einnig G.E.M.
Anscombe, „Siðfræði nútímans" (þýð. Benedikt Ingólfsson), Heimspeki á tutt-
ugustu öld, ritstj. Einar Logi Vignisson og Ólafur Páll Jónsson (Reykjavík:
Heimskringla, 1994).