Skírnir - 01.09.2001, Page 280
544
KRISTJÁN KRISTJANSSON
skírnir
míns. Þetta þýðir ekki að Logi telji „hreinu skynsemisveruna" hafa betri
ósiðferðisbundin rök fyrir máli sínu en Gauthier heldur, einfaldlega, að
ósiðferðisbundin rök gefi ekki einhlít svör um það hvorn kostinn eigi að
velja (73).
Næst snýr Logi sér að Habermas sem réttlætir siðferðið ekki út frá
sjálfdæmi: einræðu sjálfhverfrar skynsemi hjá einum manni og niðurstöðu
hennar - heldur samdœmi: viðræðu samleitinnar skynsemi margra ein-
staklinga og þess sem hún óhjákvæmilega getur af sér. „Óhjákvæmilega"
er lykilorðið hér því að hugsun Habermas er sú að ef fólk kæri sig koll-
ótt um siðferðisboð, brjóti boðin viljandi eða staðhæfi að minnsta kosti
eins og efahyggjumaðurinn að ekki sé á neinn hátt óskynsamlegt að hafna
þeim, lendi það í „gjörningarmótsögn“. Með gjörningarmótsögn er átt
við verklegt ósamræmi milli inntaks staðhæfingar S og skilyrða þess að
mögulegt sé að líta á S sem framlag til skynsamlegrar umræðu, rétt eins og
hjá manni sem staðhæfði: „ég er ekki til“. Svo virðist sem eitt skilyrða
þess að unnt sé að bera slíka staðhæfingu fram sé að sá sem staðhæfir sé
til. Þar með er „gjörningarmótsögnin" lifandi komin (14-15).
Habermas viðurkennir fúslega þakkarskuld sína við Kant. Kant hélt
því einmitt fram að við „gætum ekki viljað“ að persónulegt viljalögmál
svo sem „ég má lofa upp í ermina á mér til að bjarga eigin skinni“ yrði al-
heimslögmál þar sem slíkt fæli í sér verklega mótsögn: Hugtakið „loforð“
yrði von bráðar innantómt og ónothæft. Auðnuvegur okkar er, sam-
kvæmt Kant, hið „skilyrðislausa skylduboð" sem kveður á um að maður
eigi ávallt að breyta þannig að hann geti viljað að forsendur breytni sinn-
ar verði alheimslögmál, það er að segja geti viljað án þess að lenda í verk-
legri mótsögn þar sem ein forsenda, eitt persónulegt viljalögmál, rekur sig
á annars horn. Habermas færir skylduboðið frá hjartarótum einstaklings-
ins, þar sem Kant taldi það best komið, að tungurótum einstaklinga í sam-
félagi, minnugur frægra hugmynda á 20. öld um félagslegt eðli hugsunar:
Einungis þau persónulegu viljalögmál teljast siðferðilega réttmæt sem
gætu hlotið samþykki allra þátttakenda í siðferðilegri samræðu við
ákveðnar kjöraðstæður („kjörræðustöðu"). Maðurinn sem segist aldrei
hirða um siðferðileg boð, og neitar til dæmis að hlýða á nokkur rök sem
koma frá þjóðfélagshópum sem honum er í nöp við, lendir í gjörningar-
mótsögn vegna þess að hann leggur staðhæfingu sína í púkk skynsamlegr-
ar umræðu um siðferðið, umræðu sem sjálf getur ekki talist skynsamleg
nema hún fullnægi ákveðnum siðferðilegum kröfum, til dæmis um gagn-
kvæma virðingu fyrir ólíkum sjónarmiðum og að einstaklingar séu ekki
útilokaðir handahófskennt frá því að láta í sér heyra.
Um forsendur Habermas væri hægt að skrifa langt mál og gagnrýnið
og það værum við Logi sjálfsagt báðir tilbúnir að gera við annað tækifæri.
En hér, eins og áður þegar hann atti kappi við Gauthier, leyfir Logi and-
stæðingnum að sækja inn í vítateig sinn, að mestu óáreittum, og beitir síð-