Skírnir - 01.09.2001, Page 284
548
KRISTJÁN KRISTJÁNSSON
SKÍRNIR
(ósiðferðisbundnum) ástæðum heldur siðferðilegum, það er að segja hátt-
arhyggju manna á borð við John Rawls. Margt af því sem Logi segir þar
um kenningu Rawls sérstaklega er áhugavert og upplýsandi, en rökin
gegn þeirri kenningu og háttarhyggju almennt ber annars mjög að sama
brunni og fyrr: Höfuðástæða þess að hafna ber háttarhyggju af öllu tagi
er að hún varpar skugga á þær efnislegu ástæður sem máli skipta. Það að
„öldungar" undir „fávísisfeldi" Rawls komist að þeirri niðurstöðu, eftir
að hafa þokað siðferðishugmyndum sínum í „ígrundað jafnvægi", að rétt
sé að gera x kann að vera merkilegt og lærdómsríkt. En það er hið sterka
gildismat, byggt á efnislegum ástæðum, sem á að knýja okkur til dáða,
ekki sú staðreynd að aðrir myndu komast að sömu niðurstöðu um dáð-
irnar við tilteknar formlega skilgreindar aðstæður. I lok 15. kafla blasir
þannig við að kutar Loga eiga að bíta á allar tegundir formhyggju, ekki
aðeins skynsemishyggjuna þó að hann hafi lagt til hennar óðast og tíðast.
III
Greinargerð Loga fyrir siðferðishyggju sinni vekur ýmsar hugrenningar
og má þó frá einni senn segja. Sé hún sett í sögulegt samhengi minnir
áherslan á siðferðið sem sjálfstæða „veru“ ögn á Hegel. Nokkrir nútíma-
siðfræðingar hafa og sett fram hugmyndir á borð við þær sem Logi kem-
ur orðum að og ber þar hæst John McDowell, aðalleiðbeinanda hans við
doktorsritgerðina sem bókin er sprottin upp úr. En siðfræðingar hafa
fæstir tekið Hegel alvarlega, af ýmsum ástæðum (og ekki öllum skynsam-
legum) og það hefur háð McDowell að þykja fremur tyrfinn og óaðgengi-
legur. Ég minnist þess varla að hafa áður lesið jafnskýra og greinargóða
lýsingu á siðferðishyggju af því tagi sem Logi boðar. Það er afrek út af
fyrir sig. Að auki sýnist mér sem margt af rökum Loga þrífist ekki á „ann-
arra strokkuðu áfum“ heldur sé frumlegt og nýstárlegt - sem vitaskuld er
enn virðingarvænna.
Tvær efasemdir sem vakna við lesturinn skulu nefndar hér í því augna-
miði einu að víkja þeim til hliðar, hinni fyrri vegna þess að Logi svarar
henni ágætlega sjálfur og hinni síðari meðal annars vegna þess að hún
krefðist ítarlegri umræðu en þessi grein rúmar. Einhver gæti, í fyrra lagi,
fundið það að rökfærslu Loga að hún gangi í vítahring: Ruddaskap sé for-
kastað vegna þess að hann sé ruddalegur og svo framvegis. En þá ber að
minnast þess að Logi taldi efnisleg siðferðishugtök, sem láta í ljós sterkt
gildismat, ekki einungis réttlætast af sjálfum sér heldur einnig af tengslum
við önnur slík hugtök („tengslaþátturinn" svonefndi hér að framan):
Ruddaskapur er ekki einungis siðferðilega rangur vegna þess að það sem
er ruddalegt er í eðli sínu rangt - nákvæmlega fyrir þá sök að það er
ruddalegt - heldur einnig vegna þess að hann niðurlægir og særir réttlæt-
iskennd þess sem verður fyrir barðinu á honum. Hinn meinti vítahringur