Skírnir - 01.09.2001, Page 285
SKÍRNIR
HANDAN SJÁLFDÆMIS OG SAMDÆMIS
549
er þannig rofinn. Sé efasemdin hins vegar sú hvort yfirleitt megi styðjast
við sterk gildishugtök til að rökstyðja önnur slík hugtök er svar Loga að
fyrst ekki hafi verið sýnt fram á að sterku gildismati fylgi neinn sérstak-
ur heimspekilegur vandi sé ekkert því til fyrirstöðu, fremur en að nota
einn vísindalegan dóm til að rökstyðja aðra vísindalega dóma, eins og al-
siða er (192-194).17 Síðari efasemdin lýtur að því hvort siðferðishyggja
Loga velti ekki á að siðferðileg innhyggja (motivational intemalism) sé
rétt, en hún gerir ráð fyrir því að skilningur á siðferðilegum hugtökum
feli nauðsynlega í sér vilja til verka, þannig til dæmis að manni sé beinlín-
is ókleift að skilja að eitthvað sé siðferðilega rangt án þess að þykja það
þar með slæmt og hafa einhverja hvöt til þess að forðast það.18 Innhyggja
Loga birtist meðal annars í þeim áðurnefnda skilningi hans á efnislegum
siðferðishugtökum að eitthvað í eðli þeirra hvetji eða letji til athafnar. Nú
er innhyggja afskaplega umdeild hugmynd,19 en ég kýs að láta umræðu
um hana bíða betri tíma, ekki aðeins til að lengja ekki ritgerð þessa úr hófi
fram heldur einnig vegna þess að Logi rökstyður hana ekki sjálfur,20 sem
og hins að hampaminna er að gagnrýna siðferðishyggju hans frá öðru
sjónarhorni, eins og ég vík að von bráðar.
Spyrjum enn, áður en lengra er haldið, hvert sé hið raunverulega mark-
mið með bók Loga Gunnarssonar. Hann segir á einum stað að eitt höfuð-
keppikefli sitt sé að sýna fram á að skynsemishyggja sé óþörf réttlæting-
arleið; siðferðið þurfi ekki á slíkri réttlætingu að halda (47). Um þetta
snýst líka vissulega megnið af bókinni. Á mörgum öðrum stöðum, bæði
snemma í henni og seint, hamrar hann hins vegar á því að meginspurning
verksins - sem það svari svo neitandi - sé sú hvort þörf sé á ósiðferðis-
bundinni réttlætingu siðferðisins (ix, 5, 20, 47, 257, 260). Þegar kemur að
síðasta kaflanum (fyrir utan viðauka), þeim 16., hlýtur lesandinn að undr-
ast þessar yfirlýsingar. Öll orka höfundar hefur fram að því farið í að and-
æfa formhyggju (einkum skynsemishyggju), raunar með afskaplega hug-
vitsamlegum og sannfærandi hætti, og þótt siðferðishyggju Loga sjálfs,
17 Sjá einnig „Að skilja lífið og ljá því merkingu“, bls. 137-138.
18 Á íslandi hefur Vilhjálmur Arnason rökstutt innhyggju af einhverju tagi í „Um
gæði og siðgæði" og „Að skila ull eða æla gorinu. Tekið undir kveðju Kristjáns
Kristjánssonar“ í Broddflugum. Sjá einnig ritgerð mína, „Að vita og vilja“ í
Þroskakostum - sem lýsir andstæðu sjónarmiði.
19 Sjá t.d. máttuga gagnrýni Sigrúnar Svavarsdóttur á hana og skýra vörn fyrir út-
hyggju í „Moral Cognitivism and Motivation", The Philosophical Review 108
(1999). Sigrún telur að siðadómur hvetji mann ekki til dáða nema fyrir liggi til-
tekið viljaviðhorf hjá viðkomandi: „löngunin til að vera siðlegur" (bls. 170).
20 Logi vísar einungis stuttlega í mótrök McDowells gegn efasemdum um að inn-
hyggja sé rétt, sjá nmgr. 23 (39); sjá einnig nmgr. 1 (33). Þetta er eitt af fáum
dæmum um óskynsamlegt framhjáhlaup í rökfærslu Loga.