Skírnir - 01.09.2001, Page 290
554
KRISTJÁN KRISTJANSSON
SKÍRNIR
um rökum sem hvíla á hagfræðilegum forsendum sem aftur velta á efna-
hagslegum rökum og þar fram eftir götum. Þannig getur þetta gengið
lengi en grunnurinn undir öllu saman er engu að síður lagður af mannleg-
um þörfum og löngunum og án þeirra væru öll efnahagsleg rök (til dæm-
is rök fyrir því að betra sé að skipta við Landsbréf en VIB) marklaus. í
þriðja lagi tekst veraldarhyggjan af alvöru á við sjálft manneðliði2 sem
skynsemishyggjan lokar augunum fyrir og siðferðishyggjan víkur einnig
„til hliðar“, eins og Logi orðar það (223). Vilhjálmur Árnason gagnrýndi
á sínum tíma, í eftirminnilegri grein, siðferðiskenningar sem misbjóða
þeirri staðreynd að „manneskjan er líkamleg vera sem þiggur orku sína af
náttúrulegum lífsöflum". Maðurinn er „náttúruvera" og „verður ekki
skilinn nema í ljósi þess“, segir hann.33 Samband siðferðisins við náttúr-
una liggur að vísu víða um krókaleiðir þar sem öll kennileiti og vegvísar
eru af siðferðilegu tagi en á endanum skilar það okkur þó heim í höfn
hinna „náttúrulega lífsafla". Mér virðist að það sé löstur á siðferðishyggj-
unni að horfa framhjá moldareðli mannsins og að veraldarhyggja af tagi
Hursthouse eða nytjastefnunnar sé þar hiklaust trúverðugri kostur. En ég
mun ekki færa ítarlegri rök að því hér heldur legg ábendingar mínar um
sifjafræði, uppeldi og manneðli í dóm lesandans.
IV
Víkjum þá snöggvast að þýsku bókinni.34 Það sem fyrst sker í augu er hve
gjörólík hún er siðfræðiritinu enska að allri framsetningu og efnisskipan.
Væri nafn höfundarins máð út dytti líkast til fáum í hug að hér hefði sami
heimspekingurinn um vélt.
Logi skrifar Wittgensteins Leiter (hér eftir: Stiga Wittgensteins) sem
rökræðu tveggja manna, Jóhannesar nokkurs Philologus og ungs frænda
hans, Jóhannesar Commentarius, en sver af sér allan andlegan skyldleika
32 Ég lýsi og ver manneðliskenningu úr samtímanum, svokallaða „reyndareðlis-
hyggju" til aðgreiningar frá líffræðilegri eða frumspekilegri eðlishyggju, í
„Þjóðsögurnar og manneðlið“, Ur manna minnum (greinasafn um þjóðsögur),
ritstj. Baldur Hafstað og Haraldur Bessason (væntanlegt).
33 „Er manneskjan náttúrulaus? Hugleiðingar um siðferði og mannlegt eðli“ í
Broddflugum. Þess skal þó getið að þessi grein er skrifuð áður en Vilhjálmur
tók að hallast meir á sveif formhyggju (leikregluhyggju) í anda Habermas og
Rawls, sbr. ritgerð hans, „Leikreglur og lífsgildi. Hugleiðing um hlutverk sið-
fræðinnar" í sömu bók, sem síðan hefur valdið mikilli gerjun meðal íslenskra
heimspekinga; sjá ýmsar ritgerðir í Hvers er siðfrœðin megnug? Safn ritgerða í
tilefni tíu ára afmœlis Siðfrœðistofnunar, ritstj. Jón Á. Kalmansson (Reykjavík:
Siðfræðistofnun/Háskólaútgáfan, 1999).
34 Þá sem óar við þýskunni má hugga með því að ensk gerð bókarinnar kom út í
Joumal of Philosophical Research 26 (2001) og nefnist þar „Climbing Up the
Ladder: Nonsense and Textual Strategy in Wittgenstein’s Tractatus".