Skírnir - 01.09.2001, Page 293
SKÍRNIR
HANDAN SJÁLFDÆMIS OG SAMDÆMIS
557
James Conant og Coru Diamond, þá ber hann í raun fram sinn eigin
frumlega túlkunarkost: „and-and-dulhyggjutúlkunina“ (d). Samkvæmt
henni hefur lesandinn - sem bær málnotandi - á reiðum höndum öll þau
tæki og tól sem hann þarf á að halda til að átta sig á að staðhæfingar við-
komandi texta séu merkingarlausar áður en hann kemur að honum. Lest-
urinn kennir honum ekkert nýtt um merkingu heldur, þess í stað, um
sjálfan sig sem persónu: tilhneigingu sína (og þar með í raun okkar allra)
til að halda að staðhæfingar sem eru merkingarlausar hafi merkingu.
Kjarni verksins er ekki merkingarfrœðilegur heldur sálfræðilegur; hann er
nokkurs konar sannleikslyf sem hjálpar lesandanum að uppgötva sann-
indi um sjálfan sig, sem sé þau hve glámskyggn hann er á merkingu. Sam-
kvæmt þessari túlkun hefur því Tractatus umfram allt gildi sem „með-
ferðarúrræði" (eins og það yrði væntanlega orðað í meðferðarsamfélagi
nútímans); bókin skýrir ekki sem slík muninn á merkingu og merkingar-
leysu heldur afhjúpar hneigð lesandans til að villast á þessu tvennu.
Það er flest heillandi við Stiga Wittgensteins: stíllinn, efnistökin, efnið.
Jafnvel þeim sem hvorki hafa sökkt sér niður í fræði Wittgensteins né öll
fræðin um Wittgenstein, sem orðin eru mikil að vöxtum, dylst naumast
að farið er fimum og frumlegum höndum um Tractatus Logico-
Philosophicus og að hér er um að ræða gagnmerkt framlag til ritskýringa
á verkinu og skilnings á hugsun Wittgensteins. Skiptir þá litlu hvort les-
andinn er á endanum sammála túlkun Commentariusar/Loga eða neitar
að sleppa lausu því haldreipi að Tractatus hafi átt að kenna okkur eitthvað
nýtt um mál en ekki bara sál. Stigi Wittgensteins er, hvort heldur er, ger-
semi.
V
Nýverið mátti lesa í dagblöðum að um fjórir tugir íslenskra atvinnu-
söngvara störfuðu nú við óperuhús á erlendri grund. Það eru ekki jafn-
margir íslenskir heimspekingar sem „gera garðinn frægan" - eins og það
er jafnan orðað um lista- og íþróttafólk en af einhverjum ástæðum aldrei
um fræðimenn - en þeim fer þó fjölgandi og á engan mun hallað þó að
Logi Gunnarsson sé þar talinn í fremstu röð. Þær tvær bækur hans sem
hér hafa verið ræddar eru, hvor á sinn hátt, völundarsmíð. Þýska bókin er
merkt framlag til Wittgenstein-fræða og sú enska listilega samið andófsrit
gegn siðferðilegri skynsemishyggju, rit sem færir sannfærandi rök að því
að réttlæting siðferðisins sé í senn handan sjálfdæmis og samdæmis. Þótt
uppgjör hans í lokin við siðferðilega veraldarhyggju sé ekki fullkarað lýt-
ir það bókina lítt heldur undirstrikar fremur metnað hans sem heimspek-
ings. Það er engu að síður von mín að Logi átti sig betur í framtíðinni á
þeim sannindum sem Sigurður Nordal læsti svo í orð að maðurinn sé
jarðbundin vera og eigi að vera það meðan hann dvelur hér á jörðinni:
„Hann á ekki að reyna að rífa sig upp með rótum, hvað hátt sem hann