Skírnir - 01.09.2001, Page 310
574
SOFFÍA AUÐUR BIRGISDÓTTIR
SKÍRNIR
móti kemur að þagnirnar og eyðurnar gefa færi á fjölbreytilegum túlkun-
armöguleikum.
Hœgan, Elektra
Leikur og veruleiki
„Við skulum ekki vekja upp gamla drauga, móðir,“17 segir unga leikkon-
an við móður sína, eldri leikkonuna, í leikriti Hrafnhildar Hagalín Guð-
mundsdóttur og hliðstæðurnar við leikrit Sigurðar Pálssonar verða strax
augljósar. Hér eru aftur á ferð leikkonur sem berjast við fortíðardrauga og
í brennidepli er spunasýning sem endaði á afdrifaríkan hátt og batt enda-
hnútinn á leikferil mæðgnanna. Eða hvað? Er leikritið Hægan, Elektra ef
til vill sýning sem mæðgurnar eru að sviðsetja (eða spinna), kannski eftir
langt hlé? Slíkar hugleiðingar fá byr undir báða vængi undir lok leikrits-
ins þegar eldri leikkonan fer „út úr hlutverkinu" og kallar í myrkrinu:
„Ljós upp!“ (74). Eftir að leikkonurnar fara út úr hlutverkum sínum
ávarpar sú yngri þá eldri áfram sem móður þannig að beinast liggur við
að þær séu mæðgur „í raun og veru“. Lokaatriði leikritsins sýnir okkur
leikkonurnar stíga út af sviði leikhússins og þakka fyrir sig. Áður en þær
hverfa á braut standa þær á sviðsbrúninni, horfa fram og eldri leikkonan
segir orðið „leikhúsið“ sem hin yngri endurtekur síðan. Hér er því ítrek-
að, ef einhver hefur velkst í vafa, að leikritið hefur framar öðru snúist um
leikhúsið sjálft, möguleika og takmarkanir þess og áhrif leiklistarinnar á
listafólkið sem gefst henni á vald. I Einhver í dyrunum eru slíkar hugleið-
ingar einnig til staðar þótt þær séu kannski ekki eins áberandi og í Hæg-
an, Elektra.
Hægan, Elektra er leikrit í einum þætti sem á yfirborðinu fjallar um
samskipti mæðgna. Segja má að í verkinu vindi fram tveimur sögum sem
gerast á ólíkum tímaskeiðum. Annars vegar er það framvindan á sviðinu
sem gerist í nútíð og hins vegar er framvindan sem sýnd er á kvikmynda-
tjaldi og sýnir okkur upptöku af spunasýningu mæðgnanna í fortíðinni.
Textinn „á tjaldinu“ er um þriðjungur af heildartexta leikritsins og sagan
sem þar er sögð/sýnd fleygar með jöfnu millibili þá sögu sem gerist á
sviðinu. Við fyrstu sýn mætti halda að það sem við sjáum á sviðinu sé
„raunveruleiki" en það sem varpast á tjaldið sé „leikur“ eða „spuni“.
Fljótlega verður þó ljóst að þessi aðgreining stenst ekki, hefðbundnar
væntingar okkar til leiks og veruleika eru smátt og smátt afbyggðar eftir
því sem fléttu verksins vindur fram. Það sem gerist á tjaldinu getur ekki
lengur flokkast sem spuni (eða list augnabliksins) þar sem kvikmyndavél-
in hefur fest það á filmu sem sýna má aftur og aftur. Síðar kemur einnig í
17 Hrafnhildur Hagalín Guðmundsdóttir. Hœgan, Elektra. Reykjavík: Mál og
menning 2000, bls. 27. Hér eftir verða blaðsíðutöl sett innan sviga í meginmáli.