Skírnir - 01.09.2001, Page 311
SKÍRNIR
PERSÓNUR OG LEIKENDUR
575
ljós að það sem gerðist á tjaldinu er ekki síður „raunveruleiki“ en það sem
gerist utan tjalds. Dæmi um hvernig mörk leiks og veruleika eru þurrkuð
út, og hvernig báðir „heimar" verksins fléttast saman í órjúfanlega heild,
má sjá í upphafs- og lokaatriðinu. I upphafsatriðinu gengur eldri leikkon-
an á tjaldinu fram á sviðsbrún og ávarpar áhorfendur og býður þá vel-
komna með nokkrum orðum. í lokaatriðinu ganga báðar leikkonurnar á
sviðimt fram á brún þess og ávarpa áhorfendur. Þessar athafnir, sem segja
má að myndi ramma um verkið/sýninguna, tilheyra í raun ólíkum tíma-
skeiðum leikritsins en falla engu að síður saman í eitt þegar verkið er
skoðað í heild. Það sem skiptir þó mestu máli þegar leikritið er túlkað er
að gera sér grein fyrir því að á milli þeirra tveggja atburðarása sem fram
fara innan leikritsins (á sviðinu og á tjaldinu) er órjúfanlegt og merking-
arbært samhengi.
Grundvallarátökin í Einhver í dyrunum eru þau sálrænu átök sem
leikkonan Kolbrún á í við sitt innra sjálf, eða átök á milli vitundar og dul-
vitundar. í Hœgan, Elektra eru átökin einnig fyrst og fremst sálræn en hér
eru það mæðgur sem takast á og átökin eiga sér ýmsar orsakir. Hægt væri
að skrifa langt mál um samband mæðgnanna út frá kenningum um áhrif
mæðra á dætur sínar og þátt þeirra í sálfræðilegri mótun og kynmótun
þeirra. Það verður þó ekki gert hér heldur mun ég beina athyglinni að
tengslum leikritsins við það gríska efni sem kalla má undirtexta verksins
og hvernig þau tengsl geta hjálpað lesanda/áhorfanda við að fylla upp í
eyður textans.
Gríska sögnin um Elektru
Titill leikritsins vísar í alþekkta gríska goðsögn um Elektru, dóttur kon-
ungsins og hershöfðingjans Agamemnons og eiginkonu hans Klýtæmn-
estru drottningar. Eins og frægt er myrtu drottning og friðill hennar, Æg-
isþos, hinn sigursæla konung við heimkomu hans úr Trójustríðinu. Leik-
rit grísku harmleikjaskáldanna Sófoklesar og Evripídesar um Elektru fjalla
um ill örlög hennar, harm og hefndarhug. Elektra syrgir föður sinn ákaft
og leggur hatur á móður sína og óskar henni dauða. Hún bíður komu
bróður síns Orestesar, sem snýr aftur úr útlegð og fremur verkið sem er
„meira en voðalegt“- móðurmorðið - áður en yfir lýkur.18 I leikriti
Hrafnhildar er hvergi vikið beint að þessari gömlu sögu en nokkrar
óbeinar vísanir í grísku harmleikina er að finna í textanum auk þeirrar
beinu tilvísunar sem felst í titlinum. Titillinn einn og sér nægir til þess að
gera áhorfanda eða lesanda Hagan, Elektra vakandi fyrir tengslum við
18 Orðalagið er úr Elektru Evripídesar í íslenskri þýðingu Helga Hálfdanarsonar.
Grískir harmleikir. Æskílos, Sófókles, Evripídes. Reykjavík: Mál og menning
1990, lína 1226, bls. 655.