Skírnir - 01.09.2001, Page 312
576
SOFFÍA AUÐUR BIRGISDÓTTIR
SKÍRNIR
hið forngríska efni, tengslum sem eru fyrst og fremst af þematískum toga
spunnin og skýrast smátt og smátt þegar líður á leikritið.
Mæðgurnar í Ilægan, Elektra eru nafnlausar (ætíð nefndar yngri og
eldri leikkonan) en á einum stað kallar dóttirin sig sjálf Elektru (68). Eins
og Elektra í grísku sögninni virðist hún bera þungan harm í brjósti. Til-
finningar hennar í garð móðurinnar sveiflast frá fullkominni undirgefni
og uppgjöf til haturs, sem er þó að mestu leyti bælt og kemur aðeins ör-
sjaldan upp á yfirborðið. Á þeim augnablikum virðist hún þess albúin að
drepa móður sína. Ris leikritsins er tvíþætt því um er að ræða ris í at-
burðarásum beggja tímaskeiða, á sviðinu og í kvikmyndinni á tjaldinu.
Þessi ris eru þó af sama toga og falla saman í leikritinu og er það eina at-
riði leikritsins þar sem sagan á sviðinu og sagan á tjaldinu eru ekki að-
skildar. Risið lýsir aðdraganda að móðurmorði sem hætt er við á síðustu
stundu (á tjaldinu) eða komið í veg fyrir á síðustu stundu (á sviðinu). I
báðum þessum atriðum kristallast ósk dótturinnar um að drepa móður
sína og í bæði skiptin gerir móðirin sér grein fyrir ósk hennar.
Einn af lærisveinum Freuds, Carl Gustav Jung, var á þeirri skoðun að
á kynmótunarferli stúlkna gengju þær í gegnum stig sem einkenndist af
því að þær legðu hatur á móður sína og kepptu við hana um ást föður síns.
Þetta kallaði hann elektruduld og taldi að væri sambærilegt við ödipúsar-
duldina eins og Freud skilgreindi hana. Freud hafnaði þessari kenningu
Jungs alfarið og taldi ekki hægt að breyta formerkjum ödipúsarduldar-
innar á þennan hátt.19 Flins vegar er ljóst að samband á milli mæðgna get-
ur verið erfitt á ýmsan hátt, um það bera sálfræðin, sagan og heimsbók-
menntirnar glöggt vitni. Móðirin er yfirleitt talin leika stærsta hlutverkið
í mótun sjálfsmyndar dætra sinna og heilbrigt uppeldi á að miða að því að
dóttirin nái að þroskast frá móður sinni og öðlist heildstæða sjálfsmynd.
Eitt aðalvandamál dótturinnar í Hægan, Elektra er einmitt að hún virðist
eiga í erfiðleikum með að greina á milli eigin sjálfs og móðurinnar, þarfir
móðurinnar eru hennar þarfir og líðan hennar löguð að þörfum móður-
innar. Með öðrum orðum mætti segja að mörk sjálfsmyndarinnar séu
óljós eða fljótandi, eins og oft vill verða hjá konum sem eru sálfræðilega
háðar mæðrum sínum.20 Þetta er ítrekað í atriðum þar sem dóttirin end-
urtekur orð móður sinnar eða endurspeglar þarfir hennar:
19 Sjá Sigmund Freud. Uber die Weibliche Sexualitat. 1931. Sjá enska þýðingu
Joan Riviere Female Sexuality í The Standard Edition of the Complete
Psychological Works of Sigmund Freud. James Strachey (ed.). Volume XXI.
Lundúnum: Hogart Press og the Institute of Psycho-Analysis 1961, bls.
221-43.
20 Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir sem lék dótturina í sviðsetningu Þjóðleikhúss-
ins á Hægan, Elektra lýsir henni m.a. með eftirfarandi orðum: „Hún er líka ein
af þeim dætrum sem hefur ekki náð að þroskast frá móður sinni.“ Sjá Morgun-
blaðið, 24. febrúar 2000.