Skírnir - 01.09.2001, Page 314
578
SOFFÍA AUÐUR BIRGISDÓTTIR
SKÍRNIR
sem er fallegt og skemmtilegt. Allt rennir þetta stoðum undir þá ályktun
að það sé dóttirin sem sé hvíldar þurfi og sé ef til vill að jafna sig eftir sál-
rænt áfall. Dóttirin ber öll merki þess að þjást af þunglyndi. Hún sefur
mikið, hreyfir sig lítið (stendur oftast hreyfingarlaus á sviðinu eða situr
og reykir), hugsar ekki um útlit sitt og virðist í stuttu máli eiga við leynd-
an harm að stríða. Móðirin reynir að hressa hana við en með litlum ár-
angri: „Þú ert alltaf svo döpur. Eins og þú sért með allan heimsins þunga
á herðunum. Slakaðu á og reyndu að njóta lífsins. Þú ert ung. Þú ert heil-
brigð. Ekki ertu lömuð. Þú hefur enga ástæðu til að sýta“ (11). Gefið er í
skyn að dvöl mæðgnanna á „þessum stað“ sé ekki samkvæmt hennar vilja
þegar hún segir á einum stað lágt við sjálfa sig: „Það eina sem ég veit er að
við erum hér. Innilokaðar. Gluggarnir lokaðir. Dyrnar lokaðar. Hér, inn-
an þessara fjögurra veggja. Og við komumst ekki út“ (31). Manni verður
ósjálfrátt hugsað til orða Elektru í leikriti Sófoklesar sem segist líta á
móður sína fyrr „sem fangavörð en móður“.21 I sama leikriti er Elektra
reyndar vöruð við því að Klýtæmnestra og Ægisþos hyggist senda hana
„burt þangað sem þú aldrei færð að líta dagsins ljós; í klefa djúpt í jörð þú
syngja skalt þitt harmaljóð ein til dauðadags.“22
Fljótt á litið mætti halda að dóttirin sé í einhvers konar gæslu eða með-
ferð og móðir hennar dveljist hjá henni til að aðstoða hana við að ná sér.
En hvert er þá áfallið? Beinast liggur við að leita skýringa í spunasýning-
unni sem fram fer á tjaldinu. Sýningin virðist a.m.k. marka þáttaskil í lífi
þeirra mæðgna:
UNGA LEIKKONAN: Þetta var fyrir sýninguna.
ELDRI LEIKKONAN: Jaá. Fyrir sýninguna.
UNGA LEIKKONAN: Núna er eftir sýninguna.
ELDRI LEIKKONAN: Ég veit það.
UNGA LEIKKONAN: Núna er löngu eftir sýninguna.
ELDRI LEIKKONAN: Þú þarft ekki að segja mér það. Ég veit það!
(24 og 29-30)
Eins og áður er getið er framvindan á sviðinu við og við fleyguð með
myndskeiðum sem varpað er á stórt kvikmyndatjald fyrir enda sviðsins,
samkvæmt sviðslýsingu höfundar. Það sem fram fer á tjaldinu er upptaka
af síðustu leiksýningu mæðgnanna.23 í umræddri sýningu leikur dóttirin
21 Grískir harmleikir, 1990, lína 597, bls. 370.
22 Sama rit, lfnur 380-82, bls. 365.
23 Þessi síðasta leiksýning var reyndar einnig frumsýning þeirra mæðgna, gagn-
stætt því sem leikstjóri sýningar Þjóðleikhússins, Viðar Eggertsson, segir í við-
tali við Morgunblaðið, 24. febrúar 2000: „Mæðgurnar, leikkonurnar tvær, eiga
sérkennilega sögu að baki þegar við kynnumst þeim á Litla sviði Þjóðleikhúss-
ins. Þær hafa unnið mikið saman, sýnt í eins konar tilraunaleikhúsi spunasýn-