Skírnir - 01.09.2001, Page 331
SKÍRNIR
ÞORVALDUR ÞORSTEINSSON
595
ir á að Gústavi hefði tekist vel upp. En því skyldi Þorvaldur hafa valið
sölumann? Gæti það verið vegna þess að listamaðurinn finnur sjálfan sig
í hlutverki sölumanns fyrir eigin ágæti, að listamaðurinn lendi í því að
reyna að fá áhorfendur til að trúa á sig? Annars er það nokkuð dæmigert
fyrir gjörninga og myndbandsverk Þorvalds að hann gerir sér far um að
fá aðra til að leika aðalhlutverkið. Hann sjálfur skilgreinir aðeins sviðið,
skipar í hlutverk og leggur helstu línur. Að öðru leyti grípur hann ekki
inn í. Þátttakendur verða að leika af fingrum fram.
Allir byrja á byrjuninni
Ég hef heyrt þá skýringu hjá Þorvaldi að upphafið að vasaleikritunum
megi rekja til þess að hann hafi uppgötvað kennslubækur fyrir byrjendur
í ensku, á þeim tíma sem hann sótti fyrirlestra í bókmenntafræði við Há-
skóla íslands. Það sem sló hann við kennslubækurnar var málið á þeim. í
kennslubókunum er byrjað á grunninum, því einfaldasta og nauðsynleg-
asta í málinu: bendingum, fyrirmælum, spurningum og svörum. Og til að
nálgast þetta málfar eru settar á svið aðstæður sem sýna hvernig málinu er
beitt, til að leiðbeina byrjendum um rétta málnotkun.
Það sem hefur sjálfsagt blasað við Þorvaldi í kennslubókunum er svar-
ið við spurningunni: á hverju á að byrja? í kennslubókunum hefur hann
fundið leið til að frelsa sjálfan sig undan því oki að þurfa að byrja á því að
skapa List með stóru L-i. Hann gat gert sjálfan sig brottrækan úr eigin
verkum með því að byggja á tilbúnu formi, sem bjó ekki yfir votti af bók-
menntalegum eiginleikum, en hafði samt eitthvað sem allir könnuðust við
og þurftu að ganga í gegnum. Þetta minnir að nokkru leyti á hvernig
dadaistarnir notuðu slembileiki í þeim tilgangi að gefa listinni langt nef og
rugla áheyrendur og áhorfendur í ríminu. Hending var látin ráða í stað
yfirvegaðra listrænna áforma. Hjá Þorvaldi hefur þetta aftur á móti verið
frelsandi uppgötvun, að finna stall til að byggja á, ekki brjóta niður.
Fordæmi eru fyrir því að myndlistarmenn byggi á einföldum málat-
höfnum. Konseptlistamenn sjöunda áratugarins voru hrifnir af einföldum
málleikjum, enda voru málspekingar þá mjög uppteknir af hugmyndinni
um að hægt væri að nota málathafnir til að byggja á kenningu um merk-
ingu. Ekki var óalgengt að konseptlistamenn settu sér reglur fyrirfram um
sköpun verksins sem þeir fylgdu í blindni. Á áðurnefndri sýningu Bald-
essaris mátti t.d. sjá málverk frá því snemma á ferli listamannsins, þar sem
hann fékk kunningja sína til að mála mynd af hendinni á sér þar sem hún
benti á einhvern ómerkilegan hlut í umhverfinu. Með því að mála ekki
myndina sjálfur aðgreindi hann tæknilega og listræna þáttinn í gerð mál-