Skírnir - 01.09.2011, Page 15
SKÍRNIR
HVERNIG Á AÐ TAKAST Á VIÐ KREPPUNA? 245
III. Hugmyndin um menntaríkið
Vandi okkar íslendinga er dæmigerður fyrir heiminn allan: Við
virðumst ekki vita hvað sé til ráða. Það blasir við að okkur skortir
í senn þann hugmyndaramma og þá starfshætti sem þarf til að skilja
og takast á viðunandi hátt við vandamálin sem steðja að okkur sem
einstaklingum, sem þjóðum og sem mannkyni. Nú hefur ríkið
verið hugsað sem verkfæri okkar til að takast á við þau verkefni og
vandamál sem við stöndum frammi fyrir sem sundurleitur hópur
fólks sem lifir á tilteknu landi og deilir ákveðinni sögu og menningu.
Stjórnvöld — þ.e.a.s. þeir sem fara með stjórn ríkisins á hverjum
tíma — hafa það grundvallarhlutverk að tryggja almenna hagsmuni
tiltekinnar þjóðar, þ.e.a.s. réttlæti, frið og öryggi, almenna velferð
og frelsi svo nokkur grunngildi séu nefnd. Við vitum öll að það
þarf að hafa taumhald á þessu valdi vegna þess hvað það getur
valdið miklum skaða ef því er misbeitt, það er ef því er beitt í
öðrum tilgangi en þeim að tryggja grundvallarhagsmuni sem öllum
eru sameiginlegir. Verkefni stjórnmála er því ávallt að ræða hverjir
þessir hagsmunir eru á hverjum tíma og hvernig þeim verður best
borgið.
Þetta er í grunninn viðtekin hugmynd um ríkið eins og það hefur
mótast undanfarnar tvær aldir á Vesturlöndum og smám saman
breiðst út um heiminn.8 Til þess að rækja hlutverk sín — sem öll
eiga að tengjast almannaheill — hefur ríkið sett á laggirnar ýmsar
opinberar stofnanir til að gæta þeirra gilda sem það vill leggja
áherslu á: réttlæti, öryggi, velferð, frelsi og svo framvegis. Meðal
þessara stofnana eru ýmsar tegundir skóla sem bjóða upp á fræðslu
um allt milli himins og jarðar. Skólaskylda er raunar eina skyldan
fyrir utan skattskyldu (og enn í mörgum löndum herskyldu) sem
mörg ríki heimsins leggja á þegna sína.
8 Hugmyndin sem liggur nútímaríki til grundvallar þróast á ólíka vegu í Banda-
ríkjunum, Bretlandi og Frakklandi frá 17. og 18. öld. John Locke og Jean-Jacques
Rousseau eru meðal helstu höfunda sem útlista hana og réttlæta á ólíka vegu. Á 20.
öld er kenning Johns Rawls vafalaust merkilegasta og mikilvægasta tilraunin til
að útlista hana og rökstyðja, sbr. Political Liberalism (New York: Columbia Uni-
versity Press 1993). Sjá Vilhjálm Árnason 2008: 14. kafla.