Skírnir - 01.09.2011, Page 20
250
PÁLLSKÚLASON
SKÍRNIR
Forngrikkjum og á miðöldum“ (Ricoeur 1986: 400). Þetta táknar
að ríkið verður stöðugt að vera gagnrýnið í viðleitni sinni til að
mennta borgarana, bæði hvað varðar hina tæknilegu og efnahagslegu
rökvísi og einnig varðandi söguvitundina sem gjarnan er bundin
viðteknu siðferði og hefðum. Það sem er talið vera „rökvíst og sögu-
legt“ eða „skilvirkt og rétt“ þarf stöðugt að yfirvega á gagnrýninn
hátt og í slíkri yfirvegun þarf fólk að nýta sér fræðilegar hugmyndir,
nýja tækni og almenn siðferðislögmál.
Sú menntun sem ríkið þarfnast er því bæði tæknileg og siðferði-
leg. Bernard P. Dauenhauer (1998: 253) dregur saman hugleiðingar
Ricoeurs um þetta efni og segir „dygð ríkisins [vera] að tvinna
saman viðmiðunina um mælanlega afköst og mælikvarða hinnar lif-
andi hefðar en þetta tvennt gefur ákveðnu sögulegu samfélagi sín
sérstöku einkenni og vísar því veginn í leit að sjálfstæði og langlífi.
Ríkið iðkar dygðina með því að taka að sér verkefni kennarans fyrir
milligöngu skóla, fjölmiðla o.s.frv.“ En einni spurningu er enn
ósvarað: Hvernig á að greina helstu þætti þessarar menntunar og
hrinda henni í framkvæmd?
Áður en við nálgumst þessa spurningu skulum við líta á síðari
leiðina sem Ricoeur telur skipta sköpum til að skilja ríkið, þ.e.a.s.
ríkið sem afl.
V. Ríkið sem afl — hugmyndin um heimsríkið
I augum Ricoeurs er hugmyndin um ríkið sem menntaríki eingöngu
leiðheinandi eða takmarkandi hugmynd í skilningi Kants. I þeim
skilningi er ekki til neitt menntaríki í raunveruleikanum, þó að rök-
vísi ríkisins krefjist þess að við höfum menntunina að leiðarljósi
þegar við hugsum um skipulag þess og starfsemi. En af hverju er
hugmyndin um menntaríkið aðeins leiðbeinandi hugmynd? Svar
Ricoeurs er að þessi hugmynd um ríkið vísi aðeins til annarrar
hliðar ríkisins, þ.e.a.s. formsins. Ríkið sem afl, ríkið sem kemur
fram vilja sínum gagnvart þjóðfélaginu, ríkið sem er byggt á beitingu
valds og gerir tilkall til þess að hafa einkarétt á að beita lögmætu
valdi, eins og Max Weber benti á, það er ríkið eins og það horfir við
fólki í raun. Og hér er ekki skeytt um menntun, öðru nær.