Skírnir - 01.09.2011, Page 32
262 SVANUR KRISTJÁNSSON SKÍRNIR
forsetakosningum væri landið eitt kjördæmi og öll atkvæði jafn-
gild.3
Islenska lýðveldið fékk í vöggugjöf merkilega arfleið, hina ís-
lensku leið til lýðræðis. Þar var ekki litið á beint lýðræði og full-
trúalýðræði sem andstæður, heldur þvert á móti. Beint lýðræði sem
og fulltrúalýðræði voru talin virka best með samvinnu; fulltrúa-
stofnanir, ekki síst löggjafarþing og ríkisstjórn, áttu að hafa styrk
til sjá um daglegt löggjafarstarf og stjórnsýslu en kjörnir fulltrúar að
viðurkenna forræði fólksins í mikilvægustu málum með því að vísa
þeim til úrskurðar þess, m.a. í þjóðaratkvæðagreiðslum.4
í stjórnarskrá lýðveldisins var mælt fyrir um þingbundna
stjórn, þar sem ríkisstjórn situr í skjóli Alþingis. Jafnframt skal
þjóðkjörinn forseti hafa á hendi mikilvægt forystuhlutverk í lands-
málum. Hann fer ásamt Alþingi með löggjafarvaldið, skipar ráð-
herra og veitir þeim lausn. I landinu á skv. stjórnarskránni að vera
fjölræði þar sem enginn fer með allt vald. í mikilvægustu ágrein-
ingsmálum er talið eðlilegast að þjóðin sjálf ráði úrslitum mála.
Þannig skipa þjóðaratkvæðagreiðslur öndvegi í stjórnarskránni.
Forseti íslands hefur til að mynda ótakmarkaðan rétt til að neita að
undirrita lagafrumvörp sem Alþingi hefur samþykkt. Lögin taka
engu að síður gildi en lokaákvörðun er í höndum þjóðarinnar.
Sömuleiðis skal þjóðin samþykkja eða synja samþykkt Alþingis um
að víkja forseta frá völdum. Ekki verður sambandi ríkis og kirkju
heldur breytt nema að undangenginni bindandi þjóðaratkvæða-
greiðslu.
Ekki var þess langt að bíða að hinn íslenski draumur um öflugt
lýðræði í nýju lýðveldi þyrfti að gangast undir mikla og örlagaríka
prófraun. Eftir lok styrjaldarinnar skapaðist mikið óvissuástand í
landinu. Horfur í efnahagsmálum voru slæmar og vofa atvinnuleysis
sveif yfir þjóðlífinu. I landinu var fjölmennur bandarískur her sem
samkvæmt samningi hafði átt að hverfa úr landinu við stríðslok.
Bandarísk stjórnvöld töldu hins vegar að öryggishagsmunir Banda-
ríkjanna kölluðu á varanlega hersetu þeirra á íslandi. Hvattir af
3 Um tilurð stjórnarskrár íslenska lýðveldisins og valdastöðu forseta Islands, sjá t.d.
Sigurð Líndal 1992, 2004; Svan Kristjánsson 2002, 2005.
4 Sjá Svan Kristjánsson 2006a, 2006b.