Skírnir - 01.09.2011, Side 43
SKÍRNIR VARÐ ÞJÓÐÞINGIÐ AÐ ÞJÓFÞINGI ? 273
um hálfri öld fyrr — að tveir nýir flokkar náðu fulltrúum á Alþing.
Að öðru leyti voru úrslitin með hefðbundnum hætti. Sjálfstæðis-
flokkurinn stærstur með tæplega 40% fylgi og 23 þingmenn, Fram-
sóknarflokkur tæplega 20% fylgi og 14 þingmenn, Alþýðubanda-
lagið með mjög litlu minna fylgi en Framsóknarflokkur en einungis
10 þingmenn, og Alþýðuflokkur ríflega 10% atkvæða og sex þing-
menn.
Ekki verður með sanni sagt að Alþingi hafi endurspeglað þjóð-
ina. Þannig sátu 51 karl á þingi en einungis níu konur, þar af fjórar
fyrir nýju flokkana tvo. I þingflokki Sjálfstæðisflokksins voru ein-
ungis tvær konur en fyrir Framsóknarflokkinn sat engin kona á
þingi.9 Kjördæmakerfið tryggði ekki jafnt vægi kjósenda óháð bú-
setu á landinu. Þannig komu einungis 25 þingmenn (um 40%) frá
tveimur kjördæmum, Reykjavík og Reykjanesi, en þar bjuggu um
60% kjósenda en minnihlutinn í dreifbýliskjördæmunum sex hafði
tryggan meirihluta á löggjafarsamkomu þjóðarinnar. Sömuleiðis
ívilnaði kjördæmakerfið einum flokki, Framsóknarflokknum, mjög
á kostnað annarra stjórnmálaflokka en fylgi hans var mest í dreif-
býlinu þar sem ríkti hagkerfi frumatvinnugreinanna, landbúnaðar og
sjávarútvegs.
Þannig hafði Framsóknarflokkurinn sterkari stöðu á Alþingi en
fylgi hans hjá þjóðinni gaf tilefni til. Þetta hjálpaði flokknum vissu-
lega í að ná þeirri oddastöðu sem flokkurinn náði eftir þingkosn-
ingarnar 1983 þrátt fyrir að hafa tapað miklu fylgi frá kosningum
1979 þegar flokkurinn hlaut um fjórðung atkvæða og sautján þing-
menn. Engu að síður varð formaður Framsóknarflokksins, Stein-
grímur Hermannsson, forsætisráðherra í samstjórn Framsóknar og
Sjálfstæðisflokksins sem mynduð var í maí 1983. Halldór Ásgríms-
son, varaformaður Framsóknarflokksins, settist í stól sjávarútvegs-
ráðherra, eitt valdamesta ráðherraembættið. Alls fékk Framsóknar-
9 Reyndar hafði aðeins ein kona, Rannveig Þorsteinsdóttir, setið á Alþingi fyrir
Framsóknarflokkinn frá stofnun hans 1916, í eitt kjörtímabil (1949-1953). Kynja-
slagsíðan var enn meira áberandi í hagsmunasamtökum og sérfræðingahópum utan
Alþingis. Þannig átti engin kona sæti í nefndum sem störfuðu í aðdraganda laga-
setningar um fiskveiðistjórnun 1983. Á Fiskiþingi voru eingöngu karlar sem og í
stjórn Fiskifélagsins og LÍÚ. Karlveldið var alls ráðandi í íslenska valdakerfinu.