Skírnir - 01.09.2011, Page 63
SKÍRNIR
AÐ HALDA FORMANN MEÐ KOSTNAÐI
293
og héraðsríkin tengdust og þeim breytingum sem urðu á þessum
tengslum þegar líða tók á 13. öldina, en einnig verður rýnt í ástæður
þess að héraðsríkin náðu ekki að þroskast í að verða fullburða smá-
ríki undir stjórn smákonunga, svipuð þeim sem Snorri segir að hafi
enn verið á Upplöndum í tíð Ólafs konungs Haraldssonar (Snorri
Sturluson 1979: 46).
Engar beinar heimildir eru til um það hvernig elstu héraðsríkin
urðu til, ríki Oddaverja, Haukdæla og Ásbirninga, og hafa ýmsar
kenningar komið fram í þeim efnum.3 Af þessum þremur elstu
ríkjum er ríki Ásbirninga líklega elst, en það varð til á fyrri hluta
12. aldar eða jafnvel fyrr þótt ekki séu allir á einu máli um það frekar
en annað í þessum efnum (Gunnar Karlsson 2004: 292-293; Helgi
Þorláksson 2010: 65-67). Hin tvö ríkin komu svo til sögunnar á
síðari hluta aldarinnar. Á fyrstu áratugum 13. aldar urðu síðan til tvö
stór héraðsveldi til viðbótar, ríki þeirra bræðra, Snorra og Sighvats
Sturlusona, og um tilurð þeirra höfum við dágóðar heimildir.
Ríki Snorra Sturlusonar4
Á fyrsta áratug 13. aldar varð til nýtt héraðsríki á Vesturlandi með
Borgarfjarðarhérað og Vestur-Húnaþing sem kjarnasvæði. Þar
haslaði sér völl ungur maður af Sturlungaætt, Snorri sonur Hvamm-
Sturlu Þórðarsonar goðorðsmanns úr Dölum. Ekki var Snorri
auðugur maður við upphaf ferils síns því að Guðný móðir hans
hafði eytt föðurarfi hans. Snorri hafði hins vegar alist upp hjá mesta
höfðingja 12. aldar, Oddaverjanum Jóni Loftssyni, og naut atfylgis
þeirrar ættar til valda og virðingar. Árið 1202 gekk hann að eiga
Herdísi Bersadóttur hins auðga og þá fóru hjólin að snúast. Snorri
og Herdís settust fyrst að á Suðurlandi þar sem Snorri átti ætíð
nokkur ítök. Eftir að Bersi lést settust þau að á Borg á Mýrum en
það var ein af þeim jörðum sem Herdís tók í arf eftir föður sinn.
Nú skorti ekki fé og svo virðist sem Snorri hafi fljótlega náð undir
3 Um þetta efni er vísað til rannsókna þeirra fræðimanna sem nefndir voru hér að
framan.
4 Þessi kafli er að verulegu leyti byggður á 42. þætti í bók Óskars Guðmundssonar
(2010: 330-338).