Skírnir - 01.09.2011, Page 66
296
GUÐMUNDUR J. GUÐMUNDSSON
SKÍRNIR
stutt Guðmund biskup Arason gegn Skagfirðingum og Hallur var
drepinn árið 1212 að undirlagi Sighvats Sturlusonar föður Tuma.
Hvað varð um goðorð þeirra er ekkert sagt, en líklegt er að þau hafi
bæst í goðorðasafn Tuma.
Sigurður lagði nú hart að Sighvati að koma norður og taka við
goðorðunum sem Tumi átti og fór svo að árið 1215 fluttist Sighvatur
búferlum til Eyjafjarðar og tók formlega við mannaforráðum.9 En þó
að öll samkeppni væri nú úr sögunni voru héraðsvöldin sýnd veiði
en ekki gefin og það fékk Sighvatur svo sannarlega að reyna. I Is-
lendinga sögu segir að þegar Sighvatur kom í Eyjafjörð hafi verið
þar margir stórbændur „og ýfðust þeir heldur við Sighvat“ (Sturlunga
saga 1 1946: 258). Ekki kemur fram að þeir hafi dregið í efa heimildir
hans á þeim goðorðum sem hann fór með, heldur virðast þeir hafa
haft horn í síðu hans vegna þess að hann var utanhéraðsmaður.
Hér er rétt að staldra við og skoða nokkur atriði nánar. Fyrir
utan að vera ekki landfræðilega afmörkuð var það annað veigamikið
einkenni goðorðanna að þau voru í einkaeign. Það þýddi að eig-
endur þeirra gátu farið með þau eins og þeim sýndist, látið þau
ganga í arf til afkomenda sinna, selt þau eða gefið ef því var að
skipta. Um það höfðu þingmenn goðorðsmannsins ekkert að segja,
formlega að minnsta kosti.10 Goðorðin voru því eins og hver önnur
eign að því frátöldu að þau voru ekki tíundarskyld. Formlega veittu
goðorðin eigendum sínum heldur ekki nein völd í héraði. Formlegt
valdsvið goðorðsmannsins var því fyrst og fremst á þingunum,
vorþingunum þar sem þeir nefndu menn í dóma og á Alþingi þar sem
þeir sátu í lögréttu og nefndu menn í fjórðungsdóma og fimmtar-
dóm.
Þó að Sighvatur væri nú orðinn eini goðorðsmaðurinn í Eyjafirði
og Þingeyjarsýslum varð hann að vinna fyrir héraðsvöldum sínum,
hann þurfti að sanna sig fyrir bændum og tókst það með ágætum.
9 Sigurður var ekki einn um að hvetja Sighvat til að koma norður, Arnór Tumason,
þáverandi höfðingi Ásbirninga, hvatti hann líka til þess og hafa þeir Sigurður
væntanlega talið að Sighvatur myndi styrkja þá í baráttunni við Guðmund biskup
Arason.
10 Helgi Þorláksson (1982: 96-97) telur að samkvæmt fornum pólitískum hug-
myndum og réttarvenjum hafi bændur þó talið sig hafa rétt til að skipta sér af
ráðstöfun goðorða.