Skírnir - 01.09.2011, Page 75
SKÍRNIR
AÐ HALDA FORMANN MEÐ KOSTNAÐI
305
Valdabrölt Þorvarðar Þórarinssonar og Þorgils skarða
En það voru ekki bara útsendarar Noregskonungs sem seildust til
valda í þeim héraðsríkjum þar sem valdatóm hafði myndast. Meðal
þeirra sem það gerðu einnig var Svínfellingurinn og goðorðsmaður-
inn Þorvarður Þórarinsson sem bjó að Hofi í Vopnafirði. Hann
hafði misst bróður sinn, kappann Odd Þórarinsson, í átökum við
Eyjólf ofsa og félaga hans og var í hefndarhug en hafði auk þess
áhuga á að seilast til valda í Eyjafirði. Þorvarður leitaði því liðsinnis
hjá Þorgils skarða því þeir voru þremenningar og fékk Þorgils
frænda sinn Sturlu Þórðarson í lið með þeim en þeir frændur voru
þá orðnir sáttir eftir átökin um Borgarfjörð. Sturla átti einnig óupp-
gerðar sakir við Eyjólf ofsa og aðra þá sem stóðu að Flugumýrar-
brennu.19 Varð það úr að saman skyldu þeir hefna harma sinna á
Eyjólfi og bandamanni hans Hrafni Oddsyni. Að því búnu skyldi
Þorgils styðja Þorvarð til valda í Eyjafirði en Þorvarður á móti
styðja Þorgils til valda í Skagafirði.
Skemmst er frá því að segja að fyrri hluti áformanna gekk bæri-
lega því þeir sigruðu þá Hrafn og Eyjólf í Þverárbardaga og féll sá
síðarnefndi þar ásamt mörgum mönnum úr báðum liðum auk þess
sem margir urðu sárir. Hrafn komst hins vegar undan á flótta.
Nú var komið að seinni hluta áætlunarinnar og skömmu eftir
Þverárbardaga héldu þeir Þorvarður, Þorgils og Sturla fund með
Eyfirðingum við Djúpadalsá. Þar bað Þorvarður sér viðtöku en
bændur tóku því fálega. Eftir að hafa ráðið ráðum sínum höfnuðu
þeir Þorvarði og fundu honum flest til foráttu, sögðust hafa frétt að
hann væri févana, ofsamaður hinn mesti og í miklum vandræðum.
Einn af forystumönnum bænda, Þorvarður Þórðarson í Saurbæ,
kvað upp úr með það að best væri að hafa engan höfðingja, en að
lokum sögðust bændur vilja bíða eftir úrskurði Þórðar kakala og
konungs um það hver skyldi ráða í Eyjafirði (Sturlunga saga II
1946: 191-192).
19 Á Flugumýri var nýlokið brúðkaupi þeirra Ingibjargar Sturludóttur og Halls Giss-
urarsonar þegar Eyjólfur ofsi og félagar hans lögðu til atlögu og brenndu bæinn.
Þar brann fjöldi manna inni, þar á meðal brúðguminn, en Ingibjörg bjargaðist við
illan leik. Sturla hefur því séð hér tækifæri til að hefna tengdasonar síns.