Skírnir - 01.09.2011, Page 76
306
GUÐMUNDUR J. GUÐMUNDSSON
SKÍRNIR
Eftir þessar hrakfarir héldu þeir félagar til Skagafjarðar og
boðuðu bændur á fund við Vallalaug þar sem Þorgils baðst viðtöku
og minnti á frændsemi sína við Kolbein unga. Það er skemmst frá því
að segja að Broddi Þorleifsson, sem var til svara af hálfu skagfirskra
bænda, hafði uppi svipuð orð og Þorvarður í Saurbæ, sagðist að vísu
einna helst vilja þjóna Þorgils en engum ef hann fengi sjálfur að ráða.
Þegar fundurinn stóð sem hæst kom bréf frá biskupi þar sem þre-
menningarnir voru bannfærðir fyrir víg Eyjólfs ofsa og eftir það var
viðtaka bænda úr sögunni (Sturlunga saga II 1946: 193). Reyndar
hafði Þorgils reynt fyrir sér í Skagafirði nokkru áður, eftir að ljóst
var að það yrði hægara sagt en gert að ná héraðsvöldum í Borgar-
firði en ekkert varð af viðtöku. í það skiptið hafði hann þó notið
stuðnings Brodda Þorleifssonar (Sturlunga saga II 1946: 139).
Seinna um sumarið gerði Þorgils svo aðra atlögu að bændum og
í þetta skipti tóku þeir við honum þrátt fyrir stórmæli biskups, mest
fyrir tilmæli Brodda sem taldi að það væri eins gott fyrir bændur
að taka við Þorgilsi því þeir kæmu honum hvort sem væri ekki af
höndum sér. Bændur kvörtuðu undan kostnaði því að Þorgils væri
félítill, en Broddi benti þeim á að Skagfirðingar hefðu jafnan haldið
formann með kostnaði. Settist Þorgils síðan að í Viðvík, fór um
héraðið og hélt fundi með bændum og tóku allir við honum (Sturl-
unga saga II 1946: 196).
Það er sitthvað athyglisvert í frásögunum hér að framan af valda-
brölti þeirra Gissurar, Þorvarðar og Þorgils. Það sem strax stingur
í augu er að enginn þeirra gerir tilkall til valda í krafti þess að hann
eigi goðorð í héraðinu og reyndar koma goðorðin, þessar fornu
meginvaldastoðir íslensku höfðingjastéttarinnar, lítið sem ekkert
við sögu. Þess í stað leituðu þeir beint til bænda um viðtöku, eink-
um þó stórbændanna sem voru í forystu innan héraðs auk þess að
veifa konungsbréfum. Bændur kváðu síðan upp úr með það hvort
þeir vildu taka við höfðingjunum eða ekki.
Sú aðferð sem hér hefur verið lýst er mjög svo áþekk því sem
sögur herma að tíðkast hafi í Noregi þegar konungsefni leituðu sér
viðtöku þar. Sem dæmi má nefna frásögn Morkinskinnu af Sigurði
slembi, en eftir að hafa vegið Harald gilla bróður sinn fór hann út á
skútu og „talaði við þá er stóðu á bryggjunum og lýsti vígi Haralds