Skírnir - 01.09.2011, Page 89
SKÍRNIR
VATNAREYÐAR SPORÐABLIK, ...
319
þeirra að málkerfinu. Vissulega voru sum orðanna í Stjörnufræðinni
tökuþýðingar, þ.e. erlenda orðið var þýtt yfir á íslensku eins og
brennistaður fyrir danska orðið ,brændepunkt‘, aðdráttarafl fyrir
,tiltrækningskraft‘, miðflóttaafl fyrir ,centrifugalkraft‘ og líkinda-
reikningur fyrir ,probabilitetsregning‘, en þeim getur verið vandi á
höndum sem vilja búa til svo góða tökuþýðingu að erlenda orðið
skíni ekki í gegn. Það tókst Jónasi með ágætum. Sama er að segja
um þau nýyrði sem ekki eru beinar þýðingar eins og fjaður-
magnaður fyrir ,elastisk‘, sporbaugur fyrir ,ellipse‘ og staðvindur
fyrir ,passater‘. Hér verður ekki sérstaklega rætt um þennan þátt í
nýsköpun Jónasar en áhugasömum lesendum er bent á grein Bjarna
Vilhjálmssonar í Skírni 1944 þar sem fjallað er rækilega um nýyrða-
smíð Jónasar í þýðingunni á bók Ursins.
Jónas skrifaði einnig greinar um náttúrufræðileg efni í tímaritið
Fjölni, t.d. um fiska, fugla og spendýr, og þurfti að búa til fjölda
orða sem nú teljast flest til daglegs orðaforða eins og hryggdýr,
liðdýr, lindýr, skjaldbaka, mörgœs, skötuselur, fýll, haförn, œðar-
kóngur, hafflötur, kerfjall, kerhóll, meltingarfœri og œxlunarfceri.
Sama er um þessi orð að segja og fjölmörg nýyrðanna í Stjörnu-
frœðinni að þau urðu strax hluti almenns orðaforða og eru það enn
í dag fyrst og fremst vegna þess hve þau eru lýsandi og gegnsæ.
Dálítið hefur verið skrifað um orðaval Jónasar í kvæðum hans og
ljóðaþýðingum og þau nýyrði sem hann bjó til í þeim tilgangi að
koma hugsunum sínum í ljóðform. Matthías Johannessen (1993)
fjallar t.d. um skáldið og þýðandann í bók sinni um Jónas, Jakob
Benediktsson ritaði grein um nokkur lýsingarorð hjá Jónasi og komið
er að ýmsum orðum í ritinu Kvceðafylgsni eftir Hannes Pétursson.
I greininni er ekki ætlun mín að ræða um skáldið Jónas og þá
strauma, þær stefnur og þá einstaklinga sem helst höfðu áhrif á
hann. Það hafa aðrir gert ágætavel eins og Páll Valsson (1999) í ævi-
sögu Jónasar, Einar Ólafur Sveinsson (1944), Matthías Johannessen
(1993), Hannes Pétursson (1961, 1979), Helgi Hálfdanarson (1978)
og Guðmundur Andri Thorsson (1985) svo einhverjir séu nefndir.1
1 Benda má einnig á bókina Undir Hraundranga með úrvali af ritgerðum um Jónas
Hallgrímsson.