Skírnir - 01.09.2011, Síða 91
SKÍRNIR
VATNAREYÐAR SPORÐABLIK, ...
321
sveitarblóma. Hann horfir í huganum á klógula ernina, sem hlakka
yfir veiðinni, sér birkiþrastasveiminn blika í laufi, stendur á hlaðinu
í rausnargarði og heyrir öldufallaeiminn frá ströndinni, hlustar á
hafganginn við Eyjasand og sér fyrir sér borðfagra skeið sem bíður
þeirra Gunnars og Kolskeggs. Á ferð eru skeiðfráir jóar á leið með
húsbændur sína til skips enfrægðarhetjan hræðist ekki óvinafjöld.
Um þetta kvæði hefur Hannes Pétursson skrifað í Kvteðafylgsni
(46-73).
Annað dæmi er Vísur Islendinga (64-65). Nýyrði Jónasar í því
kvæði eru vonarhýr, sálarylur, guðaveig, vonarstund (2), deyfðar-
vani og táradögg. Sungið er um gleðina sem skín af vonarhýrri brá,
guðaveigarnar lífga sálarylinn, hann vill að mörgum deyfðarvana
verði breytt, varar við að trúa heimsins glaumi, því táradaggir falli
stundum skjótt og leggur til að hátíðisdagurinn, sem sungið er um,
verði kallaður vonarstund.
I Hulduljóðum (116-123) eru fjölmargar nýjar samsetningar:
hulduþjóð, hamrabýli, döggsvalur, holtaþokuvœl, marblceja, vand-
lætishetja, tignarfaldur, saltdrifinn, tárperla, foldarblómi, lokka-
höfuð, vinarbrjóst, foldarskart, ástarsæll, vallarstjama, sílalæti, daggar-
nótt, yndisarður, hreiðurbúi, hindarhjal, vorglaður, sporðablik.
Virðist hvert þessara orða valið af kostgæfni eins og sjá má t.d. í
ljóðlínunum:
Kvað hann um blóma hindarhjal
og hreiðurbúa lætin kvik,
vorglaða hjörð í vænum dal
og vatnareyðar sporðablik.
Þetta eru aðeins dæmi um þrjú af ljóðum Jónasar. Þeir bragarhættir
sem hann valdi kölluðu oft á samsett merkingarrík orð eins og sjá
má í mörgum dæmanna sem nefnd voru og í þeim sem nefnd verða
hér á eftir. Valdir verða nokkrir flokkar orða sem gefa góða mynd
af nýyrðum hans. Þar sem ekki er unnt að nefna allar nýmyndan-
irnar í umræddum flokkum verða önnur orð í dæmunum, sem
eignuð eru honum, undirstrikuð.