Skírnir - 01.09.2011, Page 113
KRISTÍN LOFTSDÓTTIR
Hlutgerving íslenskrar menningar
Samfélagsleg umræða um grunnskólalögin, trúarbrögð
ogfjölmenningarlegt samfélag
Á síðustu árum hefur víða mátt sjá umfjöllun sem vísar til aukins
fjölbreytileika Islendinga og fjölmenningarlegs samfélags á íslandi
(Unnur Dís Skaptadóttir og Kristín Loftsdóttir 2009). Slík umræða
er margþætt og nær til ólíkra sviða samfélagsins. Viðfangsefni þess-
arar greinar er félagsleg umræða um trúarbrögð og skólamál í fjöl-
menningarlegu samhengi og hvernig staðlaðar hugmyndir um
menningu virðast oft liggja þar að baki. I því skyni skoða ég við-
brögð við frumvarpi til laga um grunnskóla á árunum 2007-2008.
Sjónum er beint að umræðu um orðalag varðandi kristna trú í
grunnskólalögunum og tengingu hennar við aukna fjölbreytni ís-
lensks samfélags. Tengsl skóla og þjóðkirkju hafa verið í kastljósinu
síðustu ár og því mikilvægt að skoða þær hugmyndir sem liggja þar
að baki og hvernig þær tengjast hugmyndum um fjölmenningarlegt
samfélag með beinum eða óbeinum hætti.
í frumvarpi til laga um grunnskóla, sem lagt var fram á Alþingi,
135. löggjafarþingi, var fjarlægð sú staðhæfing í lögunum frá 1995,
að starfshættir skólans ættu að mótast af „kristilegu siðgæði“ og í
staðinn sagt að „[sjtarfshættir grunnskóla [skyldu] mótast af um-
burðarlyndi, jafnrétti, lýðræðislegu samstarfi, ábyrgð, umhyggju,
sáttfýsi og virðingu fyrir manngildi" {Frumvarp til laga ... 2007-
2008: 1). í greinargerð með frumvarpinu segir að ýmsir aðilar hafi
bent á að ekki ætti að tilgreina með beinum hætti kristilegt siðgæði
í lögunum:
Einnig er kveðið á um að starfshættir skuli mótast af umhyggju, sáttfýsi og
virðingu fyrir manngildi í stað kristilegs siðgæðis í gildandi lögum, en þessi
hugtök eru kjarninn í túlkun á kristilegu siðgæði í aðalnámskrá grunnskóla.
Skímir, 185. ár (haust 2011)