Skírnir - 01.09.2011, Page 117
SKÍRNIR HLUTGERVING ÍSLENSKRAR MENNINGAR 347
á vef Alþingis.3 Hann talar þar um niðurfellingu orðanna „að skóla-
starf skuli mótast af kristilegu siðferði" í nýju grunnskólalögunum
og spyr því næst hvort eigi að úthýsa kristninni úr skólastarfinu?
Guðni segir: „Islenskt samfélag er reist á kristnum gildum og er
órjúfanlegur hluti alls okkar andlega og menningarlega umhverfis,“
en bætir síðan við:
Allir kannast við frásögn Biblíunnar þegar Kristur velti borðum víxlaranna
og rak þá út úr helgidóminum. Nú skal kennsluborðum kristninnar velt og
hún gerð brottræk úr helgidómi íslenskra menntastofnana að undirlagi
hæstv. menntamálaráðherra og ríkisstjórnarmeirihlutans í landinu og
heggur nú sá er hlífa skyldi. (Guðni Ágústsson 2007)
Björn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra, tók undir þessi orð
eins og sjá má af orðum hans: „Slitni tengsl skóla og hins kristna
menningararfs er vá fyrir dyrum því að þar með hverfur skilningur
á grundvallaratriðum hinnar menningarlegu umgerðar þjóðarinnar
og hins kristna heims almennt." Björn undirstrikar að
Þingið hefur aldrei brugðist kristinni trú, það var Alþingi sem samþykkti
á sínum tíma að kristni skyldi lögtekin — og hvers vegna skyldi Alþingi
nú taka upp á því að bregðast kristnum viðhorfum? (Björn Bjarnason 2007)
Samkvæmt Birni felur þessi breyting á grunnskólalögum í sér að á
einhvern hátt sé verið að „bregðast“ kristninni. Fleiri þingmenn úr
ýmsum stjórnmálaflokkum lögðu orð í belg og tóku almennt undir
orð Guðna og Björns og vísuðu margir í sitt eigið kristilega uppeldi.
Menntamálaráðherra, Þorgerður K. Gunnarsdóttir (2007), svaraði
fyrirspurn Guðna með þeim orðum að með þessari breytingu væri
ekki verið að „úthýsa kristninni og kærleiksríku inntaki hennar úr
grunnskólalögum". Hún sagði að kristinfræði héldi áfram að gegna
þýðingarmiklu hlutverki í aðalnámskránni og væri í raun áfram
mikilvægasti þáttur trúarbragðakennslu. Athyglisvert er að mennta-
málaráðherra finnst ástæða til, eins og fyrri ræðumönnum, að leggja
áherslu á að kristin trú og íslensk menning séu samofin á einhvern
hátt og segir að ,,[m]enning okkar og saga einkennist og mótast
3 Sjá http://www.althingi.is/altext/135/12/112152918.sgml. á vefsíðu Alþingis.