Skírnir - 01.09.2011, Side 134
364
ÞORSTEINN ÞORSTEINSSON
SKÍRNIR
að minnsta kosti.5 Þau bera fyrirsagnir sem hafa nokkuð ljóslega
þann tilgang að búa til heild úr ósamstæðum brotum. Eitt ljóðið er
í fernu lagi og þrír hlutar þess hafa tilvísun til flutnings eins og um
sé að ræða nokkurskonar óratóríu („Einsaungur með þremur harm-
ónikum", „Blandaður kór gervimanna", „recitativo"). Hjálmar H.
Ragnarsson tónskáld hefur samið óperu eftir bálkinum.
I viðtali um óperuna sagði Hjálmar að niðurstaða sín um kvæðið
væri að það hefði einhverskonar ástarsögu að geyma (Orri Páll
Ormarsson 1995). Einnig kveði við trúarlegan tón í því auk þess
sem átök kynjanna, hins harða og mjúka séu áberandi. „Þetta er
grunnurinn í okkar skilningi en það er svo mikið á milli línanna í
þessu kvæði að það má hugsa sér að túlka það margvíslega.“ Eg vil
taka undir orð hans um „einhverskonar ástarsögu“ og „trúarlegan
tón“ og margvíslega túlkunarmöguleika.
Annars virðist ekki hafa verið fjallað mikið um efni ljóðanna.
Óskar Halldórsson segir reyndar að Halldór sé að fjalla um „tengsl
sín við konuna annars vegar, en guð hins vegar. Þar verður uppi
togstreita, áþekk þeirri sem ríkir í Vefaranum."6 Ætla má þó að litið
hafi verið á ljóðin umfram allt sem dægradvöl skáldsins og spé um
virðulegan skáldskap. Ekki er ætlun mín að hafna með öllu slíkum
lestri, hann er eflaust í meginatriðum réttur, en ég hygg þó að meira
búi í ljóðunum enda eru þau ort á einu helsta umbrotaskeiði í lífi
Halldórs. Þau eru uppgjör, í þeim er kvatt tímabil sem nú er að baki.
Tónninn er kæruleysislegur, grallaralegur, blandinn sjálfskopi.
Greinilegur kveðjutónn er í mörgum ljóðanna, meðal annars því
fyrsta sem ber hið undarlega heiti „Aftaná nafnspjald", væntanlega
nafnspjald ljóðmælanda. Ekki er alveg ljóst hver ávarpaður er, nema
hvað það virðist vera kona eins og reyndar í átta eða níu öðrum
ljóðum syrpunnar. Varla er einleikið hvað skáldinu er mikið í mun
5 „Kvæðum þeim sem ég orti um sama leyti og ég samdi Vefarann sló ég saman í eina
lángloku á útmánuðum 1926 [þá er Halldór kominn frá Sikiley til Clervaux (ÞÞ)]
og kallaði Rbodymenia palmata. “ Og skáldið kveðst hafa valið „syrpunni þetta
nafn vegna formleysis og óreglu jurtarinnar sem nafnið ber, svo og vegna þess
bragðs af seltu, sætu og joði sem er að jurtinni einsog kvæðinu" (Halldór Kiljan
Laxness 1949: 142-43). Um er að ræða jurtina söl.
6 Óskar Halldórsson 1973: 70. Svipuðum skilningi lýsir Eysteinn Þorvaldsson
(1980: 57).