Skírnir - 01.09.2011, Page 145
SKÍRNIR MANNABÖRN ERU MERKILEG 375
inn byrjar sem ávarp til barns — að því er virðist Dóra litla sjálfs
heima í Mosfellssveit (talað er um „ljúfan lækjakór í litlum dal“) —
sem sá voldugar sýnir, en vonirnar hafa brugðist ein af annarri. Sá
sem forðum sat með veiðistöng á lækjarbakka og vildi ,sigra álsins
undramátt', hann situr nú ,við útlent borð og etur reyktan ál‘. Og
hann spyr huldumey landsins hvort „enn sé einhver von / um að
þú heillir veruleikans son“. En hann hefur sjálfur breyst, nú er
„eingin blekkíng orðin nógu góð / og ekkert vopn á mig er nógu
hvast“. Hér er þá enn komið það þema Halldórs að segja skilið við
blekkingar, sem setur meðal annars sterkan svip á „Rhodymenia
palmata". Slíkt er nauðsynlegt þó sársaukafullt sé. Kaflinn er afar
frábrugðinn bæði upphafi og endi kvæðisins, sem er næstum örugg-
lega samsteypa kvæða og kvæðabrota sem ekki eru ort á sama tíma.
Þetta varð algeng aðferð skálda á 20. öld; fræg dæmi eru Eyðilandið
og Holmennin eftir T.S. Eliot, sem lagði á það ríka áherslu að
kvæðum væri styrkur að því að hugblærinn væri ekki sá sami frá
upphafi til enda. Af þessu tagi er byggingarlag margra helstu kvæða
Halldórs frá þriðja áratugnum: „Únglíngsins“, „Rhodymenia pal-
mata“, „Nætur á tjarnarbrúnni“ og „Aprílsins", og hann er að þessu
leyti einkar nútímalegt skáld.
Næst kemur prósakafli með miklum súrrealískum einkennum,
og síðan niðurlag:
Einn stend ég einn,
samviskulaus einsog bifreiðaumferð í apríl meðan
enn berast fréttir af skiptöpum fyrir Vesturlandi. Og
þeir nötra fyrir krafti mínum í hillíngum vangetu
sinnar.
Og ég stend einn á tjarnarbrúnni
andspænis hinni ógurlegu ángist guðlegrar þrenn-
íngar, fölleitur maður sem speglar sig með vindlíng
í munninum:
Tat tvam así.19
19 Orðrétt: „Það þú ert“ á sanskrít. Það er að segja: Þú ert hluti af alverunni.
Sjá t.d. http://en.wikipedia.org/wiki/Tat_Tvam_Asi