Skírnir - 01.09.2011, Page 150
380
ÞORSTEINN ÞORSTEINSSON
SKÍRNIR
yfir öllu streði manna. Nokkuð langsótt skýring, og eflaust hæpin,
enda djúpt á merkingunni. Þó gæti hún rímað við andlegt ferðalag
Halldórs á þessu skeiði.
Upphaf annars erindis er varla hægt að greina öðruvísi en sem
hrynhent bull, skemmtilegt bull að vísu. Einstök orð og línur eru
reyndar auðskilin flest, nema orðið ,blæjubrum‘ sem ég hélt satt að
segja að skáldið hefði smíðað til þess eins að þjóna þörfum bragar-
háttarins. Svo er þó ekki; fyrir eru í málinu gamlir orðskviðir: ,Blítt
er blæju brumið' — þar sem orðin merkja ,ást brúðkaupsnætur-
innar'23 — og ,Skammur er blæjubríminn'.
Hendingar hafa nú tekið við af endarími og ráða ferðinni ásamt
stuðlum:
Himindís í blæubrumi
brosir dátt er tekur að nátta,
en sængurklæði sín hefur feingið
Shakespeares öld á bakvið tjöldin.
Er hér merkingu að finna? Varla í vísupartinum í heild að ég fái séð.
Aðferðin er enn „að láta orðin hoppa og hía út um borg og bí“. En
orðin „landkönnuður Furðustranda" í seinnihluta erindisins eru
alveg í samræmi við þann skilning á persónunni í fyrsta erindi sem
ýjað var að hér að framan; alter ego Halldórs er sagður lýsa „einsog
logi í gosi“ — skemmtileg sjálfsmynd! — og hugur hans leitar til
Suðurlanda:
Lýsir einsog logi í gosi
landkönnuður Furðustranda.
Suðrá land mun sálin venda
sólarmegin í lífsins skóla.
Um þriðja og síðasta erindið er eitthvað svipað að segja og um
miðerindið, þar er verk að vinna fyrir hugvitssama skýrendur vana
harðsoðnum dróttkvæðum skáldskap:
23 Svo skýrt í Islenzkum mdlsháttum. — OHI tilgreinir samhljóða vísuorð eftir
Guðmund Friðjónsson: „Himindís í blæjubrumi", sem Halldór virðist hafa tekið
traustataki, og einnig setninguna: „Nú ganga konur á almannafæri svo fáklæddar,
að allt blæjubrum er orðið að gagnsærri grisju." — Skýringin ,ást brúðkaups-
næturinnar' er þvf varla fullnægjandi, a.m.k. virðast þeir Guðmundur og Halldór
nota orðið í merkingunni .næfurþunnt klæði, grisja'.