Skírnir - 01.09.2011, Page 181
SKÍRNIR
MARX í BOÐI BANKA
411
rétti einstaklingsins, hvað þá umburðarlyndi og frjálslyndi. Hann
skipaði alltént ekki þessum verðmætum í öndvegi, gagnstætt frjáls-
lyndum hugsuðum (þao þýðir auðvitað ekki að hann hafi verið á
móti þessum verðmætum). Er furða þótt fylgismenn hans hafi ein-
lægt verið lítt frjálslyndir og í umburðarlausasta lagi?
Gagnstætt nafna sínum Marx hélt Popper frjálslyndi og um-
burðarlyndi mjög á lofti. Hann sagði að kommúnistar hefðu numið
þá visku af Marx að öllu skipti hver hefði völdin, þeim hafi ekki
dottið í hug að meira máli skipti að koma í veg fyrir valdníðslu.
Popper bendir réttilega á að Marx hafi talið að fengi rétta stéttin
völdin þá yrði allt í himnalagi. En Marx hefði gleymt mikilvægi þess
að svara spurningum á borð við þessar: Hvernig ber að tempra vald,
koma í veg fyrir valdníðslu? Hvernig er valdinu beitt, hve miklu
valdi má beita? Þetta hefði verið örlagarík gleymska. Þegar komm-
únistar tóku völdin létu þeir hjá líða að skapa stofnanir sem gátu
komið í veg fyrir valdníðslu, t.d. stofnanir sem gætu veitt hver ann-
arri gagnkvæmt aðhald, svipað og hinar þrjár greinar ríkisvaldsins
gera í Bandaríkjunum (Popper 1962b: 133 og 162). Þannig gat lög-
gjafar- og dómsvald svipt fulltrúa framkvæmdavaldsins, Nixon for-
seta, völdum.14
Þessi gagnrýni Poppers hittir í mark, Marx sá ekki nauðsyn þess
að setja valdinu skorður. En Kolakowski kann að eiga betri skýringu
á þessari veilu marxismans en Popper. Hann segir að Marx hafi
verið einingarhyggjumaður sem hafi talið að sósíalisminn yrði sam-
félag harmonískrar heildar, slíkt samfélag yrði samfélag án miðlunar
og firringar.15 Vissulega hafi Marx lagt þunga áherslu á einstak-
lingseðli manna en samt þráð að ríki, samfélag og einstaklingur yrðu
eitt. Nær má geta hvort slíkt samfélag gæti rúmað stofnanir sem
veittu hver annarri aðhald, kæmu í veg fyrir valdníðslu. Því er engin
furða þótt Kolakowski telji alræðisþátt í þessari meintu einingar-
hyggju; ef samfélag og ríki eru eitt þá er andóf gegn ríkisofbeldi ill-
mögulegt. Hann bætir því við að hin lenínísk-staliníska túlkun á
14 Dæmið er mín eigin smíð.
15 Kolakowski sjálfur notar ekkert orð sem samsvarar „einingarhyggju" en hefði
hæglega getað gert það, orðið hæfir hugmynd hans vel.