Skírnir - 01.09.2011, Page 189
SKÍRNIR
MARX í BOÐI BANKA
419
Frjálshyggjumenn ganga vissulega of langt í að rekja mestalla
kúgun til ríkisvaldsins. Spurningin er hvort Marx og Engels hafi
ekki haft rörsýn á stéttakúgun. Þeir töldu að sósíalisminn hlyti að
verða frjálst samfélag vegna þess að í slíku samfélagi hyrfu stéttir, án
stétta, engin kúgun. En svo einfalt er málið ekki, best er að hafa
beggja heima sýn, skilja að bæði ríki og einkaframtak geta ógnað
frelsinu, sérstaklega þegar hið opinbera og auðvaldið leggjast á eitt.
Lokaorð
Kommúnistaávarpið er magnað kver, afbragðs áróðursrit. Höf-
undum þess mæltist oft vel, þeir sáu hnattvæðinguna fyrir og var
ljóst að stundum er stéttarvald verra en ríkisvald. Þeir skildu að
markaðskerfið getur hverfst í auðvaldskerfi.
En það er alræðishætta í speki þeirra, hana má helst finna í for-
skriftunum ógurlegu, jafnvel í kenningunni um blætiseðli vörunnar,
hugsanlega í sambræðslu sögu- og einingarhyggju. Draumurinn um
alfrjálsan kommúnisma vill hverfast í martröð, rétt eins og draum-
urinn um alfrjálsan markað.21
„I draumi sérhvers manns er fall hans falið“, yrkir Steinn Stein-
arr.22 Því stærri draumar, því dýpra fall. Marxista og (Lands)banka-
menn dreymdi stóra drauma, fallið varð eftir því.
Broddgöltinn dreymir einn stóran draum, refinn marga smáa.
Stælum skolla, látum okkur dreyma marga smádrauma um ögn
betra mannlíf, ögn betra fólk. En opnum augum.23
21 í bók minni Kredda í kreppu (Stefán Snævarr 2011: 19 og 74-75 og víðar) leiði
ég rök að því að frjálshyggjan sé sjálfsskæð (e. self-defeating) með svipuðum
hætti og marxisminn.
22 I draumi sérhvers manns (Steinn Steinarr 1991: 187).
23 Ég þakka þeim Arnóri Hannibalssyni og Jóhanni Páli Árnasyni fyrir gagnlegar
athugasemdir.