Morgunblaðið - Sunnudagur - 16.09.2018, Blaðsíða 31

Morgunblaðið - Sunnudagur - 16.09.2018, Blaðsíða 31
væri næstbesti kosturinn þegar í hendi. Trump myndi ná að eyðileggja hvern þann sem að lokum tæki við keflinu og yrði frambjóðandinn. Og rétt var að keppi- nautunum í prófkjörinu voru ekki vandaðar kveðj- urnar. Forsetabróðirinn Jeb, sem er geðfelldur og prúður, fékk í verðlaun fyrir það að vera lýst sem brúðu sem væri orðin rafmagnslaus. Ted Cruz var aldrei kallaður annað en Ljúgandi Ted og einhvers staðar gróf Trump upp frásögn ómerkilegs furðu- snepils sem „birti“ mynd sem átti að sýna þá saman Osvald meintan morðingja Kennedys og föður Teds „lygalaups.“ Í framhjáhlaupi má geta þess, að þegar afgangurinn af Adolf Hitler hafði legið í skókassa í skjalasafni í Kreml í áratugi birti sama blað þvert yfir forsíðu sína að sést hefði til hans í Suður-Ameríku ný- verið. Batnaði alltaf Bréfritari fylgdist ekki með öllu sem gerðist í fyrr- nefndri kosningabaráttu en nóg til að furða sig iðulega á því hvað var talið boðlegt í henni. Og hann var líka dálítið undrandi yfir hvað MM-fjölmiðlar hneyksl- uðust lítið yfir sumum tilþrifum frambjóðandans í prófkjörinu en létu sér duga að koma þeim óspart á framfæri. Á þessu stigi kom varla fyrir að Trump upp- nefndi þessa óvæntu vini sína sem „fölsunarfréttir“. En á daginn kom að hann hafði reiknað dæmið rétt og áttað sig á þessum fjölmiðlum sem hafa undantekn- ingarlaust verið í stuðningsliði demókrata í forseta- kosningum. (NYT hefur birt yfirlýsingar um slíkt í yf- ir 70 ár og hér á landi er birtingin talin stórfrétt í hvert skipti.) Trump sagði aftur og aftur að hann þyrfti ekki að safna neinum peningum. En hann þurfti athygli og hún væri tryggð úr óvæntri átt. Og svo var það sem hefðbundið fólk vissi ekki. Yfir- drifið orðalag og jafnvel stóryrði hitti fleiri í hjarta- stað en mátti ætla. Sigurvon Trumps lá ekki í liðinu sem allir voru að slást um. Þvert á móti. Hún lá hjá því fólki sem ekki hafði verið talað við lengi og hin pólitíska „elíta“ í báð- um flokkum taldi sig hafna yfir að tala til. Óvæntir rekkjunautar MM-miðlarnir héngu áfram á hverju orði þessa eina frambjóðanda í prófkjöri repúblikana og Trump montaði sig áfram yfir því að þurfa ekki að kosta neinu til baráttu sinnar! Og þegar hann vann svo óvænt alla vonbiðlana taldi MM sig hafa unnið langstærsta vinninginn í lottóinu og það án þess að eiga miða. Í framhaldinu yrði léttur leikur að tryggja sigur frambjóðandans þeirra. Trump hefði vissulega náð að vinna prófkjör repúblik- ana með framgöngu sinni, sem þeir höfðu talið að gæti ekki gerst. Nú væri því önnur staða uppi og miklu betri en þeir höfðu þorað að vona. Frambjóðendurnir í prófkjörinu sem krömdust und- ir skriðdreka Trumps myndu hugsa honum þegjandi þörfina. Þeirra stuðningsmenn, meira en helmingur af virkum stuðningsmönnum repúblikana, myndu aldrei kjósa Trump. Þeir myndu sitja heima eða styðja þann eina sem gæti komið í veg fyrir Trump-ósköpin. Hillary mynda því vinna með ótrúlegum yfirburðum og jafnvel slá út sigra Ronalds Reagans. Talsmáti Trumps og yfirgengilegar yfirlýsingar myndu aldrei ná til annarra en „the deplorable“, hinnar óhreinu stéttar, sem væri í hæsta lagi fimmtungur banda- rískra kjósenda, einmitt þess hluta sem nennti ekki á kjörstað. Nú þyrfti ekki annað en að koma óboðlegum yfirlýsingum frambjóðandans vel á framfæri. Þeim yrði vísast fagnað á fjöldafundunum með „skrílnum“ en sú sjón myndi einmitt tryggja að sómakærir Bandaríkjamenn úr báðum flokkum og fyrst og síðast þeir sem væru óháðir flokkum gætu ekki annað en kosið Hillary til að afstýra stórslysi. Eftir á spekin er dáldið snjöll Nú vitum við hvernig þetta fór og þar með þennan ofsa bandarískra fjölmiðla núna í garð „forseta síns“. Því þeir bjuggu hann til. Þótt MM-fjölmiðlarnir séu reiðir Trump þá eru þeir þó reiðastir þeim sem tryggðu sigur Donalds Trumps og framgreind tilgáta, sé hún rétt, upplýsir að það voru þeir sjálfir. Tveir málshættir í samkrulli leggja málið þannig upp: Þótt hver sé blindur í sinni sök, þá verður hann sjálfum sér sárreiðastur þegar hann neyðist til að sjá það sem allir aðrir hafa séð fyrir löngu. Náðun Forsetar Bandaríkjanna hafa vald til að náða menn og lítil takmörk á því valdi. Obama forseti var mjög stór- tækur í náðunum og beindust þær einkum að ein- staklingum sem höfðu fengið þunga dóma, jafnvel lífs- tíðardóma, fyrir aðild að eiturlyfjamálum, sölu eða burði. Sagan sýnir að það er á seinna kjörtímabili (fái forseti það) og þá helst í lok þess sem náðanir eru helst veittar. Trump hefur ekki enn gerst stórtækur í náðunum og bent hefur verið á að það skiptir máli hver mælist til þess að náðað sé. Þannig batt Trump enda á fangavistun 63 ára blökkukonu, Alice Marie Johnson, sem setið hafði inni í 14 ár af dómi til lífstíðar fyrir aðild að eiturlyfjamáli af því að Kim Kardashian fegurðarkvendi bað hann um það. Sylvester Stallone hafi samband við forsetann og taldi að rétt væri að náða boxarann Joch Johnson sem varð fyrstur blökkumanna meistari í boxi. Johnson lést raunar 1946 en hafði verið dæmdur til fangavistar árið 1912 fyrir að fara með hvítri konu yfir fylkismörk „í vafasömum tilgangi“ sem braut lög sem sett voru tveimur árum áður. Johnson hafði að sögn Stallone verið fyrirmyndin að Apollo Creed í Rocky-mynd- unum. Orðstír á sér engin tímamörk Þetta er nefnt til að minna á að menn leita réttar síns, sóma og æru, út yfir gröf og dauða, eða einhver góður gerir það í þeirra nafni. Geirfinnsmálið er í kastljósinu núna. Líklegt er að það sé mikill minnihluti þjóðarinnar nú orðið sem hafi lifað með því máli. Margir bera þó harma í brjósti vegna þess. Ekki einungis þeir sem nefndir voru í Hæstarétti í vikunni. Einnig hinir sem fengu þung högg í fyrrihluta mála- tilbúnaðarins og má ekki gleyma nú. Sumir þeirra sem nefndir eru hvað oftast nú lifa það ekki að þeirra mál séu loks rædd í öðru ljósi en áður var. Líklegast er að „þjóðin“ hafi tekið hinum umdeilda dómi vel þegar hann var felldur forðum tíð. Hann hafi með öðrum orðum ekki verið umdeildur þá. Málið hafði legið eins og mara á þjóðinni. Og nú var það frá. En það var það ekki. Það vantaði mikið upp á það allt. Og þótt nú orðið sé minna um það talað en vert væri þá var hlutur sumra fjölmiðla ekki beysinn í aðdrag- andanum, og jafnvel í sumum tilvikum afleitur og stórskaðlegur og ýtti undir þau slys sem urðu. Lengi snert þetta mál Bréfritari hafði löngu áður en það „komst í tísku“ haft óbragð í munni út af þessu máli og ýtt undir það að leitað yrði leiða til að bæta úr. Þrátt fyrir mikla and- stöðu í þeim hluta stjórnkerfisins sem helst átti í hlut, tókst að koma málinu áleiðis. En í þeirri lotu, árið 1997, náðist þó ekki sá árangur sem vænta mátti. Ári síðar flutti Svavar Gestsson þingmaður frumvarp af því tilefni. Í frásögn Morgunblaðsins af því sagði í október 1998, fyrir nánast réttum tveimur áratugum: „Davíð Oddsson forsætisráðherra sagði á Alþingi í gær að honum væru það mikil vonbrigði að Hæstiréttur skyldi ekki hafa haft lagaskilyrði til þess að taka Geir- finnsmálið upp á nýjan leik. Sagðist hann hafa kynnt sér það mál rækilega í gegnum tíðina og telur að þar hafi mönnum orðið á í messunni „í stórkostlegum mæli á nánast öllum stigum málsins“, eins og hann orðaði það. Tók hann einnig fram að á þeirri vegferð allri hefði „ekki aðeins eitt dómsmorð verið framið heldur mörg“. Slíkir hlutir gætu þó ekki gerst í dag eins og þarna gerðist.“ Síðar sagði: „Í umræðunni um frumvarpið sagði for- sætisráðherra m.a.: „Ég held að þótt það hafi verið sársaukafullt mjög fyrir íslenska dómstólakerfið hefði það verið gott og nauðsynlegt, hundahreinsun fyrir okkur, ef ég má nota svo óvirðulegt orð, að fara í gegnum það mál allt [Geirfinnsmálið] og með hvaða hætti það var unnið. Þeir sem hafa kynnt sér það mál rækilega geta ekki annað sagt en að þar hafi pottur víða verið brotinn,“ sagði hann. Ráðherra kvaðst síðan gjarnan myndi vilja að þetta frumvarp fengi góða meðferð á þinginu hvort sem það yrði nákvæmlega í því formi sem það væri nú eða hvort það ætti að auka frekar rýmri heimildir innan núverandi dómstólaskipunar til þess að taka mætti aftur upp mál eins og Geirfinnsmálið. Síðan sagði hann: „Það var ekki aðeins eitt dóms- morð framið á þessari vegferð allri. Þau voru mörg. Þau voru mörg dómsmorðin sem framin voru á þess- ari vegferð allri. Það er mjög erfitt fyrir okkur við það að búa.““ Vegna þessa, sem síðast var sagt, skrifaði reyndur og velþekktur lögmaður harðorða grein og fordæmdi þessi orð forsætisráðherrans. Og það sem meira var, þá kom einn af fyrri verjendum hina dæmdu í fjöl- miðla þungorður mjög í garð forsætisráðherrans og sagði efnislega að sinn skjólstæðingur hefði játað sekt sína og engin dómsmorð verið framin. Voru þessi við- brögð mikið umhugsunarefni. Þrettán árum síðar rifjaði Guðmundur Andri Thors- son upp framangreind orð í þinginu haustið 1998 er hann fjallaði í grein um Geirfinnsmál og Sævar Cie- sielski: „Davíð Oddsson tjáði sig býsna afdráttarlaust í ræðustól í Alþingi í október 1998 og ætli þau ummæli svo háttsetts manns í samfélaginu hljóti ekki að telj- ast það næsta sem Sævar komist því að fá uppreisn æru.“ Sem betur fer bendir nú flest til þess að sá aðili, sem einn getur að lögum bundið fast um mál eins og þetta, muni loks gera það. Seinna mátti það ekki vera. ’ Bréfritari hafði löngu áður en það „komst í tísku“ haft óbragð í munni út af þessu máli og ýtt undir það að leitað yrði leiða til að bæta úr. Þrátt fyrir mikla and- stöðu í þeim hluta stjórnkerfisins sem helst átti í hlut, tókst að koma málinu áleiðis. 16.9. 2018 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 31

x

Morgunblaðið - Sunnudagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið - Sunnudagur
https://timarit.is/publication/1078

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.