Morgunblaðið - Sunnudagur - 21.10.2018, Qupperneq 19
sinn rétta föður. „Mamma var al-
gjörlega í rusli yfir þessu. Hún hafði
enga ástæðu til að efast um dóminn
frá 1971 og blóðrannsóknina sem þá
var gerð. Hún var miður sín og vildi
gera allt til að hjálpa mér að finna föð-
ur minn.“
Móðir Kristínar sagði henni þá frá
því að það væri annar sem kæmi til
greina, bandarískur hermaður sem
var á leið í stríðið í Víetnam sem hún
hafði hitt í London. Ástæða þess að
hún nefndi hann aldrei fyrr var sú að
hún treysti upphaflegu rannsókninni,
enda hafði hún engar forsendur til
annars. „En hún mundi ekki hvað
hann hét fullu nafni. Þannig að ég var
að leita að nál í heystakki. Ég leitaði í
18 ár, sendi þúsundir tölvupósta á
menn sem gætu hafa verið í London
1969 og reyndi allt til að finna minn
rétta föður.“
Það var svo í febrúar á þessu ári að
leitin bar árangur. Kristín hafði skráð
DNA-upplýsingar sínar inn í gagna-
grunn myheritage.com og þar fékk
hún svörun. Maður í Bandaríkjunum
reyndist skyldur henni. Hún hringdi í
manninn, þennan nýja frænda sinn,
og sagði honum sögu sína. Sá hringdi
einhver símtöl og fljótt kom í ljós að
maður honum skyldur, raunar föður-
bróðir hans, hefði rætt um ástina sína
frá Íslandi sem rann honum úr greip-
um í London forðum daga. Föður-
bróðirinn heitir John David Lambert
og reyndist sannarlega faðir Krist-
ínar. Það hafa þau fengið staðfest með
99,999% vissu með DNA-prófi.
Ástfanginn af stúlkunni
frá Íslandi
Það urðu miklir fagnaðarfundir þegar
Kristín og faðir hennar hittust í fyrsta
sinn í maí síðastliðnum. „I don’t need
a DNA-test“ voru orð Johns Davids
Lamberts þegar hann sá Kristínu
fyrst. Prófið var nú samt framkvæmt
en það var víst um leið ljóst að hún til-
heyrði þessari fjölskyldu, svo sterkur
er ættarsvipurinn. Faðir hennar og
fjölskylda hans tóku henni opnum
örmum, en faðir hennar hefur verið
giftur tvisvar og á sjö börn. Í ljós kom
að hann hafði reynt að leita móður
hennar uppi eftir að hann kom heim
frá Víetnam. Hann hafði orðið ást-
fanginn af henni eftir tímann sem þau
vörðu saman í London 1969 og vildi
hitta hana aftur. Hann hafði þó enga
hugmynd um að hún hefði orðið ófrísk
og eignast stúlkubarn. Svo mikil áhrif
hafði móðir hennar þó haft á hann að
nokkur af börnunum hans og fyrrver-
andi eiginkonur höfðu heyrt af ástinni
hans frá Íslandi. Henni gleymdi hann
aldrei þótt þeim hefði ekki lánast að
hittast að nýju í þessu lífi.
Móðir Kristínar lést árið 2012 og
lifði því ekki þann dag að sjá Kristínu
finna föður sinn. Kristín hefur farið
þrisvar til Texas að heimsækja hann
og hálfsystkini sín og hefur hugleitt
að flytja þangað til að geta kynnst
þeim öllum betur og varið tíma með
föður sínum, sem hefur verið heilsu-
tæpur undanfarið. „Við þurfum að
bæta upp þau 48 ár sem við misstum
af saman. En fyrsta hindrunin er að
klára þetta mál með faðernið. Það
skiptir miklu máli fyrir hann að fá
það viðurkennt að ég sé dóttir hans
og það er mikilvægt fyrir mig að vera
rétt feðruð í þjóðskrá. Ég er algjör-
lega íslensk lagalega séð og með ís-
lenskt vegabréf. Ég ætti bara að
þurfa að framvísa DNA-prófinu og fá
þetta leiðrétt. Ég skil ekki að neinum
á Íslandi geti fundist eðlilegt að neita
mér um að breyta skráningunni.
Það var hægt að kippa Jóni út af
fæðingarvottorðinu mínu með einu
pennastriki, og þá bjó ég á Englandi.
Ég þurfti ekki að búa á landinu til
þess. En núna, þegar ég vil fá réttan
föður minn, John, skráðan á fæð-
ingarvottorðið þá er það ekki hægt
því ég bý ekki á Íslandi! Þetta er al-
veg ruglað.
Þetta skiptir engu máli fyrir neinn
í heiminum nema mig og pabba minn
og okkar fjölskyldur. Þess vegna skil
ég ekki af hverju er ekki bara hægt
að laga þetta. Það tók mig átján ár að
finna hann en nú kem ég að lokuðum
dyrum.“
Kristín bendir á að í barnalögum (í
þeim lögum er fjallað um faðerins-
mál) er áhersla lögð á rétt barna til að
þekkja báða foreldra sína. Henni
þykir sem brotið
sé gegn þessum
rétti og í raun hafi
verið brotið gegn
honum þegar hún
var barn með því
að dómstólar hér
hafi rangfeðrað
hana. Hún bendir
einnig á að þrátt
fyrir að uppúr árinu 1995 hafi komið
fram nákvæmari rannsóknir við að
greina faðerni með DNA-prófum þá
hafi fólk sem byggði vitneskju um sitt
faðerni á eldri prófum, líkt og hún,
ekki verið látið vita um ónákvæmnina
sem fyrri rannsóknum fylgdi. Mikil-
vægt sé að málið sé leiðrétt. „Þið seg-
ið annars vegar að ég eigi rétt á föður
en svo þegar ég finn hann, minn rétta
föður, þá viljið ekkert gera fyrir mig.
Réttindi mín sem íslenskur ríkis-
borgari ættu að vera í gildi hvar sem
ég bý.“
Kristín er ósátt við þau svör sem
hún fær frá Þjóðskrá að hún þurfi að
flytja lögheimili sitt til Íslands og
höfða dómsmál. Það að flytja milli
landa sé enda ekkert sem sé hrist
fram úr erminni. „Ég á ekki að þurfa
að fara heim til Íslands til að fá þetta
leiðrétt. Ég myndi missa vinnuna og
þyrfti að fara frá börnunum mínum
bara til að flytja lögheimilið mitt
tímabundið og höfða dómsmál. Það
bara hlýtur að vera einhver leið til að
veita undanþágu. DNA-próf liggur
fyrir og það hlýtur að vega þyngst í
þessu. Það er enginn vafi á því að
þetta er faðir minn en samt þarf mál-
ið að fara fyrir dóm og ég að flytja
milli landa til að geta farið í mál. Ég
skil ekki af hverju svona lítið land
þarf að vera með svona flókið kerfi.
Ég myndi alveg skilja það ef ég og
pabbi minn þyrftum að mæta t.d. í
eitthvert íslenskt sendiráð og skrifa
undir, en ég skil ekki að ég þurfi
virkilega að fara alla þessa leið til að
fá þetta leiðrétt.“
Einn þingmaður svaraði
Kristín hefur reynt hvað hún getur
til að vekja athygli á stöðu sinni, með-
al annars með því að skrifa bréf til
allra þingmanna. „Ég er búin að
senda öllum 63 þingmönnunum tölvu-
póst, en aðeins einn þeirra hefur
svarað, það er Helgi Hrafn Gunnars-
son. Hann gat svo sem ekki mikið
gert en sýndi mér þó allavega þá virð-
ingu að svara.“
Einn annar möguleiki mun þó vera
í stöðunni en það er að faðir Kristínar
sæki um að hún sé skráð dóttir hans
fyrir dómstól í Texas. Ekki er orðið
fyllilega ljóst hvort það gengur upp.
En Kristín er afar ósátt við að geta
ekki fengið faðernið leiðrétt hér á
landi, þar sem hún er fædd og kallar
heima. Hún kemur hingað reglulega
og heimsækir ömmu sína og vill halda
tengslum við
landið.
„Ég hef alltaf
verið stolt af því
að vera Íslend-
ingur, einmitt
vegna þess að Ís-
land stendur
framarlega í
mannréttindum
eins og rétti barna og rétti feðra.
Þetta var fyrsta þjóðin til að kjósa
konu sem forseta, landið er fyrir-
mynd þegar kemur að jafnrétti og
mannréttindum. Ég er alltaf að segja
fólki að fara til Íslands því hér sé allt
svo frábært. Fólkið er enn frábært,
en kerfið er gallað.
Ég veit ekki hvað við pabbi höfum
langan tíma saman en ég vil reyna að
nýta tímann sem best. Hann er eina
foreldrið sem ég á eftir á lífi og eini afi
barnanna minna. Ég eyddi öllum
mínum frítíma í 18 ár í að finna hann
og enginn hjálpaði mér. Börnin mín
ólust upp við það að ég væri alltaf að
leita. Ekkert af þessu er mér að
kenna og ég ætti ekki að þurfa að
taka út refsingu fyrir eitthvað sem
gallað kerfi bjó til. Ef þetta er reglan,
þá þarf að breyta reglunum. Mér
finnst ég hafa þurft að líða nóg fyrir
þetta nú þegar og vil bara fá þetta
leiðrétt. Ég bið ekki um mikið.“
Úr einkasafni
’ Ég get ekki lýst þvíhversu ruglingslegtþað var að komast aðþví að Jón væri ekki faðir
minn. Það sló mig al-
gjörlega út af laginu.
21.10. 2018 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 19
Að sögn Guðbjargar Önnu
Bergsdóttur lögmanns, sem
Kristín hefur leitað til hér á
landi, er málið snúið. „Hún hef-
ur enga leið til að sækja málið
fyrir dómi hér
á landi nema
hún flytji til Ís-
lands. Af því að
hvorki hún né
faðir hennar
eru búsett hér
á landi rekast
þau alls staðar
á veggi, 8. grein
barnalaga
kveður á um lögsögu í faðern-
ismálum og er skýr um að að-
ilar þurfi að vera búsettir hér á
landi,“ segir Guðbjörg.
Hún hefur kannað aðra leið
sem hægt er að fara í faðern-
ismálum, en það er að leita til
sýslumanns. „Það kemur fram í
4. gr. barnalaga að hægt sé að
gera faðernisviðurkenningu hjá
sýslumanni. En þar gilda sömu
reglur. Fram kemur í 68. gr.
barnalaga að stjórnvöld geti
leyst úr þeim málum er tengj-
ast öðrum ríkjum ef barn er bú-
sett hér á landi, eða sá sem
krafa beinist að er búsettur hér
á landi. En í barnalögum kemur
einnig fram að dómsmálaráð-
herra geti úrskurðað um um-
dæmi sýslumanns, jafnvel þótt
hann sé ekki búsettur í því um-
dæmi.“
Þarna vísar Guðbjörg í 4.
mgr. 69. gr. barnalaga þar sem
segir: [Ráðuneytið] 1) ákveður
úrskurðarumdæmi ef hvorki
barn né sá sem krafan beinist
að er búsett hér á landi eða ef
annars leikur vafi á því hvar
leysa skuli úr máli samkvæmt
framangreindu.
Guðbjörg skoðaði hvort hægt
væri að fara þessa leið, að sækja
um breytingu á faðerni til sýslu-
manns og fá því þannig breytt í
þjóðskrá.
„Ég kannaði þessa leið, en
samkvæmt þeim upplýsingum
sem ég fékk frá dómsmálaráðu-
neyti þá hefur það aldrei farið
þannig. Ávallt hefur verið úr-
skurðað samkvæmt heim-
ilisfesti. Það er alveg hægt að
láta á það reyna, en miðað við
þetta eru litlar líkur á að það
verði úrskurður sem hjálpar
Kristínu í hennar máli. Þá mun
að öllum líkindum einnig taka
töluverðan tíma að fá slíkan úr-
skurð.“
Hún segir málið í raun óskilj-
anlegt, þar sem í þessu tilviki
leiki enginn vafi á faðerni. Krist-
ín sé nú ófeðruð í þjóðskrá. „Það
samþykkja allir að hann sé faðir
hennar, það þarf bara að fá þetta
skjalfest og staðfest og skráð á
fæðingarvottorð. Hann vill
gjarnan láta skrá sig sem föður
hennar. Fram kemur í 1. gr. a í
barnalögum að barn eigi rétt á
að þekkja báða foreldra sína og
að móður sé skylt að feðra barn
sitt. Hún er núna ófeðraður Ís-
lendingur og getur ekkert gert í
því nema flytja til Íslands og
höfða dómsmál hér. Það er
meira en að segja það að flytja
milli landa,“ segir Guðbjörg.
Rekast alls staðar á veggi
Guðbjörg Anna
Bergsdóttir
lögfræðingur
Kristín sendi niðurstöður DNA-prófs sem sann-
ar að John David Lambert er faðir hennar, stað-
festingu hans og önnur nauðsynleg gögn til Þjóð-
skrár Íslands og taldi, miðað við fyrri samtöl við
stofnunina, að það dygði til að skrá réttan föður.
Svo var þó ekki og fékk hún þetta svar:
„Sæl Kristín
Þjóðskrá hefur móttekið frá þér faðernisvið-
urkenningu til skráningar í þjóðskrá.
Í ljósi þess að móðir þín er látin þarf málið að
fara fyrir dómstóla. Dómsmál er einungis hægt
að höfða hér á landi ef eftirfarandi skilyrði 8. gr.
barnalaga eru uppfyllt:
a. aðili er búsettur hér á landi,
b. dánarbú stefnda er eða hefur verið til skipta
hér á landi,
„Í ljósi þess að móðir þín er látin …“
c. barn er búsett hér á landi.
Miðað við upplýsingar þær sem þú hefur gefið
upp á framangreint ekki við í þínu tilviki. Er þér
því ráðlagt að leita aðstoðar lögmanns varðandi
framhaldið.“
Blaðamaður leitaði til Þjóðskrár Íslands eftir
nánari skýringum og fékk þau svör að stofnun-
inni sé ekki heimilt að skrá faðerni nema á
grundvelli faðernisviðurkenningar, sem er yfir-
lýsing móður um hver sé faðir barns hennar sem
viðkomandi maður gengst við. Grunnskilyrði
fyrir breytingu á faðerni er því að kona hafi lýst
tiltekinn mann föður barnsins. Sé móðir látin er
engin leið fær nema dómstólaleiðin, mál verði
að fara fyrir dóm svo hægt sé að fá faðerni við-
urkennt.