Morgunblaðið - 08.11.2018, Side 26
26 FRÉTTIRInnlent
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 8. NÓVEMBER 2018
BÆJARLIND 16 I 201 KÓPAVOGUR I SÍMI 553 7100 I LINAN.IS
OPIÐ MÁN TIL FÖSTUDAGA 11 - 18 I LAUGARDAGA 11 - 16
Ágúst Ingi Jónsson
aij@mbl.is
Brýnt er að taka rösklega til
hendinni við framleiðslu á skógar-
plöntum til að hægt verði að gróður-
setja í samræmi við markmið sem
stjórnvöld hafa kynnt um aukna
skógrækt til að
auka kolefnis-
bindingu. Í ár er
framleiðslan
svipuð og hún
var um 1990, en
markmiðið er að
fjórfalda gróður-
setningu skógar-
plantna á næstu
fimm árum. Til
að ná sem fyrst
árangri í bind-
ingu kolefnis með skógrækt þarf að
gróðursetja sem fyrst því trén fara
ekki að binda kolefni að gagni fyrr
eftir 10-12 ár þegar þau eru vaxin
úr grasi.
Þröstur Eysteinsson, skógrækt-
arstjóri, rifjar upp að á árunum upp
úr 1990 hafi mikill hugur verið í
skógræktarfólki. Landgræðslu-
skógar voru ný grein skógræktar
og héraðsskógar voru að fara af
stað, en það verkefni er nú skil-
greint sem skógrækt á lögbýlum.
Víðar var unnið að skógrækt og í
nokkur ár voru gróðursettar um
milljón plöntur árlega á vegum
Skógræktarfélags Reykjavíkur með
tilstyrk borgarinnar. Upp úr hruni
fór að halla undan fæti og smám
saman dró úr fjármagni til skóg-
ræktar.
„Nú eru framleiddar um þrjár
milljónir skógarplantna á ári en ég
vil sjá framleiðsluna fara upp í tólf
milljónir plantna á ári í lok þessa
fimm ára tímabils,“ segir Þröstur.
Plöntuframleiðsla í lágmarki
„Plöntuframleiðslan er nú í algeru
lágmarki samanborið við það sem
var 1991 og hefur ekki verið lægri
síðan þá. Nú framleiða aðeins tvær
gróðrarstöðvar skógarplöntur, Sól-
skógar á Akureyri og Kvistar á Suð-
urlandi. Víða eru menn með áform
um að hefja plöntuframleiðslu og við
vonum að það gerist sjálfkrafa þeg-
ar aukið fjármagn kemur til skóg-
ræktar að fleiri stækki gróðurhúsin
eða stofni til þessarar starfsemi.“
Hann segir að nýlega hafi finnskt
fyrirtæki í plöntuframleiðslu spurst
fyrir um áform hérlendis um aukna
skógrækt og möguleika á að setja
hér upp útibú. Bréfi Finnanna hafi
verið svarað, en síðan hafi ekkert
frést af áhuga þeirra.
Grisjast hefur úr hópnum
„Nú vantar fleiri framleiðendur
og það var ekki markmiðið þegar
ríkið nánast hætti að framleiða
skógarplöntur að einokun í einka-
geiranum tæki við af ríkiseinokun,“
segir Þröstur. „Það er alls ekkert
verra skipulag að einkageirinn sjái
um plöntuframleiðslu og eitt af
stóru verkefnunum framundan er að
auka plöntuframleiðslu. Það tekur
nokkurn tíma að koma henni á legg
og við höfum átt viðræður við for-
ystumenn gróðrarstöðva og viljum
gjarnan að fleiri komi inn í þetta.
Það er vont að hafa öll eggin í sömu
körfu.“
Hann segir að niðurskurður á fé
til skógræktar frá hruni hafi komið
niður á plöntuframleiðendum og
grisjast hafi úr hópnum. Brýnt sé að
fólk geti vitað að hverju það gangi í
þessari atvinnugrein sem öðrum. En
fleira hafi þó komið til.
„Allt er þetta háð því að fólk viti
hvað það er að gera, en því miður
hefur of mikið verið af klúðri við
framleiðslu plantna,“ segir Þröstur.
„Það fylgir því kostnaður að hefja
ræktun og síðan eru gerðar ákveðn-
ar kröfur í útboðum, til dæmis um
að visst hlutfall í hverjum bakka sé
lifandi og plöntur megi ekki vera
toppkalnar. Ef plöntur ná ekki staðli
eru þær ekki söluhæfar, tap verður
á rekstrinum og fyrirtæki detta út.
Því miður hafa of margir flaskað á
þessu og ekki haft næga þekkingu
eða ekki verið nógu vel vakandi.“
Aukin kolefnisbinding
Á fundi 10. september í haust
kynntu sjö ráðherrar ríkisstjórnar-
innar viðamikla aðgerðaáætlun í
loftslagsmálum. Markmiðið með
áætluninni er að draga úr losun
gróðurhúsalofttegunda og stuðla að
aukinni kolefnisbindingu þannig að
Ísland geti staðið við markmið sín í
loftslagsmálum. Alls verður 6,8
milljörðum króna varið til sérstakra
aðgerða í loftslagsmálum á næstu
fimm árum, sem er stórfelld aukn-
ing frá því sem verið hefur.
Megináherslurnar eru tvær;
orkuskipti, þar sem sérstaklega er
horft til hraðrar rafvæðingar sam-
gangna og átak í kolefnisbindingu
þar sem skógrækt og landgræðsla
gegna lykilhlutverki, auk þess sem
markvisst verður dregið úr losun
gróðurhúsalofttegunda með endur-
heimt votlendis.
Um fjórir milljarðar í land-
græðslu og nýskógrækt
Í máli Guðmundar Inga Guð-
brandssonar, umhverfis- og
auðlindaráðherra, á fundinum kom
fram að ráðist verður í umfangs-
mikið átak við endurheimt votlendis,
birkiskóga og kjarrlendis, stöðvun
jarðvegseyðingar og frekari land-
græðslu og nýskógrækt. Um fjórum
milljörðum króna verður varið til
þessara aðgerða á næstu fimm ár-
um. Áhersla verður lögð á að fela
félagasamtökum hlutverk, bændum
og öðrum vörslumönnum lands, eins
og ráðherra orðaði það.
Þröstur segir að Landgræðslan
og Skógræktin vinni nú sameigin-
lega með umhverfis- og auðlinda-
ráðuneytinu að gerð áætlunar um
hvernig þetta fjármagn verði notað.
Á næsta ári sé gert ráð fyrir að til
þessara stofnana komi 250 milljónir
úr verkefninu og er meðal annars
fyrirhugað að ráða þrjá sérfræðinga
til að fást við kolefnisbókhald.
Hvað skógrækt áhrærir sé gert
ráð fyrir að hægt verði að auka
gróðursetningu um milljón plöntur á
næsta ári. Þröstur segir að þegar
hann fyrst hafði veður af verkefninu
hafi hann byrjað að leggja drög að
aukinni plöntuframleiðslu. Fjár-
magnið á síðan að aukast hratt og
verður mest 2023, en ráðstöfun þess
er m.a. til umræðu hjá Skógrækt-
inni og Landgræðslunni í samvinnu
við ráðuneyti.
Um 620 bændur með
skógrækt á lögbýlum
Þröstur segir að miðað sé við að
verulegur hluti aukinnar skógrækt-
ar verði hjá bændum á lögbýlum.
Þeirra skógrækt tilheyrði áður
landshlutaverkefnunum í skógrækt
sem voru sjálfstæðar stofnanir þar
til þær sameinuðust Skógrækt rík-
isins 2016 og úr varð Skógræktin.
Landeigendur geta sótt um framlög
til skógræktar á jörðum sínum og
eru nú um 620 bændur með skóg-
rækt á lögbýlum og um 40 manns
hafa óskað eftir aðild að verkefninu
á þessu ári.
Þröstur hefur á fundum með
skógræktarfólki undanfarið rætt
þessa uppbyggingu. Hann segir að
auk skógræktar á lögbýlum sé m.a.
um að ræða verkefni Skógræktar-
innar, samstarfsverkefni eins og
Landgræðsluskóga, Hekluskóga og
Þorláksskóga og ýmislegt sé til
skoðunar. Landgræðslan er síðan
með fjölmörg verkefni á sinni
könnu.
„Skilvirkni og hagkvæmni eru
ofarlega á blaði, en einnig fjöl-
breytni. Þetta er allt í mótun og
menn hafa það að leiðarljósi að
standa vel að þessu verkefni,“ segir
Þröstur Eysteinsson, skógræktar-
stjóri, að lokum.
Þörf er á kraft-
mikilli ræktun
skógarplantna
Stefnt að fjórföldun skógræktar
næstu ár til að auka bindingu kolefnis
Haust Við Hraungarðatjörn í þjóðskóginum á Höfða skammt fyrir innan Egilsstaði í síðasta mánuði.
Gróðursetning trjáplantna
Fjöldi gróðursettra plantna frá 2000 til 2016 Áform um gróðursetningu til 2023
12
10
8
6
4
2
0
’00 ’01 ’02 ’03 ’04 ’05 ’06 ’07 ’08 ’09 ’10 ’11 ’12 ’13 ’14 ’15 ’16
Heimild: Skóræktarfélag Íslands og Skógræktin
2019 2020 2021 2022 2023
6.170.937
12.000.000
Þröstur
Eysteinsson