Kraftur - 01.01.2015, Qupperneq 5

Kraftur - 01.01.2015, Qupperneq 5
5 Kraftur 1. tbl. 2015 Samstarf Krafts og Atlantsolíu Viðtal Atlantsolía hefur lengi reynst Krafti haukur í horni og er skemmst að minnast myndarlegs styrks sem fyrirtækið veitti félaginu til að gera því kleift að halda styrktartónleika s.l. haust þar sem allur ágóðinn rann í Neyðarsjóð Krafts. Nú hafa Atlantsolía og Kraftur gert með sér nýjan sam- starfssamning sem felur í sér umtalsverðan ávinning fyrir félagsmenn Krafts. Þeir sem sækja um dælulykil í gegnum heimasíðu Kraft fá sex króna afslátt af hverjum eldsneytislítra auk þess sem tvær krónur af hverjum keyptum lítra ganga beint til félagsins. Að auki styrkir Atlantsolía Kraft með því að mæta með grillbíl fyrirtækisins á Sumargrill Krafts og gefur allar veitingar. Guðrún Ragna Garðarsdóttir er forstjóri Atlantsolíu. Hún er viðskiptafræðingur að mennt og stundar nú MBA nám í HÍ með fullri vinnu. Atlantsolía er minnsta olíufélagið hér á landi en án efa það félag sem viðskiptavinirnir eru hvað ánægðastir með sem marka má af því að fyrirtækið hefur skorað hæst allra olíufélaganna í Ánægjuvoginni sem mælir ánægju viðskiptavina þeirra. Það kemur e.t.v. ekki á óvart þar sem félagið leggur mjög mikla áherslu á góða þjónustu og hefur að auki lagt mörgum góðum málefnum lið, eins og Kraftur getur sannarlega vitnað um. „Atlantsolía – fyrirtæki sem fólk er ánægt með“ „Atlantsolía er lítið fyrirtæki sem aðeins 18 manns vinna hjá og þar af leiðir að allar boðleiðir eru mjög stuttar. Við erum afar heppin með starfsfólk sem margt hvert hefur unnið hér um árabil auk þess sem allir leggja mikið á sig og starfa sem einn maður með það að aðalmarkmiði að veita góða þjónustu. Ætli það geti ekki verið lykillinn að því hversu ánægðir viðskiptavinir okkar eru,“ svarar Guðrún þegar hún er spurð um ástæðuna fyrir ánægju viðskiptavina Atlantsolíu. „Þetta er e.t.v. sérstaklega ánægjulegt í ljósi þess að við erum ekki í beinum samskiptum við viðskiptavini okkar á meðan viðskipti fara fram þar sem allar okkar stöðvar eru sjálfsafgreiðslustöðvar.“ Að sögn Guðrúnar eru afgreiðslustöðvar Atlantsolíu nú orðnar 19 að tölu um land allt og því með góðu móti hægt að komast landshornanna á milli og eiga alltaf viðskipti við fyrirtækið. „Við vildum þó gjarnan geta sett upp fleiri stöðvar í Reykjavík en eins og staðan er nú vill Reykjavíkurborg ekki fjölga bensínstöðvum. Við reynum því þess í stað að veita sem allra besta þjónustu,“ segir hún og getur þess að stærstur hluti viðskiptavinanna séu einstaklingar. „Neytendur eru orðnir vanir þessu sjálfsafgreiðslukerfi og svo er fólk líka ánægt með að þurfa ekki að nota kort og lykilorð – heldur aðeins bera lykilinn að dælunni og fá síðan senda kvittun í tölvupósti.“ Aðspurð um góðgerðarmálin segir Guðrún það stefnu Atlantsolíu að styrka lítil góðgerðarfélög og minna þekkt; félög sem e.t.v. eru ekki eins sýnileg og önnur. „Við teljum það samfélagslega skyldu okkar að leggja góðum málefnum lið og Kraftur er dæmigert góðgerðarfélag sem við teljum ástæðu til að styrkja. Okkur þótti t.d. sérstaklega ánægjulegt að leggja styrktartónleikunum ykkar lið af því ágóðinn fer í Neyðarsjóð Krafts til að styrkja krabbameinsveikt fólk,“ segir Guðrún að lokum. Kraftur þakkar af alhug velvilja Atlantsolíu og hvetur alla til þess að skrá sig fyrir dælulykli í gegnum heimasíðu félagsins www.kraftur.org og styrkja þannig Kraft og fá að auki góðan afslátt af eldsneyti á ökutækið. Guðrún Ragna Garðarsdóttir, forstjóri Atlantsolíu Ljósmynd: Birgir Isl. Gunnarsson.

x

Kraftur

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Kraftur
https://timarit.is/publication/982

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.