Morgunblaðið - Sunnudagur - 27.01.2019, Blaðsíða 34
34 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 27.1. 2019
LESBÓK
Hugmyndaheimur tónlistarinnar verðurþaninn út fyrir heim hljóðanna ogsjónræni þátturinn leikur stórt hlut-
verk á sýningunni Hljóðön – sýning tónlistar
sem opnuð verður kl. 15 í dag, laugardag, í
Hafnarborg. Yfir sýningartímann verður í
hverri viku boðið upp á viðburði, einn eða fleiri,
þar sem fram koma ólíkir listamenn og flytj-
endur. Sá fyrsti er kl. 14 opnunardaginn, í dag,
en þá flytur norski slagverksleikarinn Jennifer
Torrence tvö tónverk. Síðasti viðburðurinn
verður við sýningarlok, 3. mars, þegar mynd-
listarmennirnir Ásta Fanney Sigurðardóttir og
Haraldur Jónsson fremja gjörninginn „Blóðsól
IV“.
„Sýningin er haldin til að fagna fimm ára
starfsafmæli tónleikaraðarinnar Hljóðanar,
sem tileinkuð er samtímatónlist, og hefur verið
á dagskrá Hafnarborgar vor og haust síðan ár-
ið 2013,“ segir Þráinn Hjálmarsson, tónskáld,
sem frá upphafi hefur haldið um stjórntaum-
ana. Og núna er hann sýningarstjóri einstakrar
sýningar sem ætluð er til að víkka starf tón-
leikaraðarinnar tímabundið með því að kynna
tónlist „sem dreifir sér með einum eða öðrum
hætti í tímaleysi safnarýmisins,“ eins og segir í
sýningarskrá.
„Tónlistin verður til umfjöllunar í nýstárlegu
ljósi og efnisheimi hennar gert hærra undir
höfði en alla jafna tíðkast – tónlistin verður í
senn hljóð og hlutur,“ segir Þráinn og útskýrir
nánar: „Flæði tímans er skipt út fyrir flæði í
rými, hljóðinu fyrir hluti og flytjandanum fyrir
hlustandann. Verkin á sýningunni eru ólík en
eiga það sameiginlegt að hafa áhrif á upplifun
tónlistarinnar, eða hafa einfaldlega með form
tónlistarinnar að gera og/eða útkomu.“
Kveður oft við annan tón
Á sýningunni eru ellefu verk eftir jafnmarga
listamenn og eru þau mörg hver býsna framúr-
stefnuleg. Líkt og kannski má lýsa tónleikum
Hljóðanar í áranna rás. „Við höfum verið með
framúrskarandi tónlistarflytjendur og alltaf
nýtt tækifærið til að frumflytja íslensk verk,
samtals hátt í þrjátíu. Eitt af markmiðunum er
að kynna ólík verk samtímatónskálda í fremstu
röð, en tónleikaröðin er vettvangur fyrir 20. og
21. aldar tónlist. Á tónleikunum kveður oft við
annan tón en þann venjulega, til dæmis hefur
borið við að tónlistarfólkið hafi leikið á sér-
smíðuð og framandi hljóðfæri,“ segir Þráinn og
nefnir finnskan sellóleikara til sögunnar, sem
eitt árið spilað á hljóðfærið Halldórófón, sem
svo nefnist í höfuðið á skapara sínum, Halldóri
Úlfarssyni. Þá hafi Lilja María Ásmundsdóttir,
tónskáld og píanóleikari, einhverju sinni leikið
á Huldu, hljóðfæri sem hún þróaði sjálf og er
hljóð- og ljósskúlptúr.
Til þess að gefa gleggri mynd af því hvernig
tónlistin verður hvort tveggja í senn hljóð og
hlutur á sýningunni tekur Þráinn dæmi af
„Sellófaní“, litlum skúlptúr eftir Jón Gunnar
Árnason, myndhöggvara. „Listaverkið er
pappahólkur fylltur með sellófan-pappír með
leiðbeiningum listamannsins um hvernig á að
fremja gjörning. Gjörningurinn felst í að pakka
pappírnum til skiptis inn í og upp úr hólknum.
Og búa um leið til heilan tónlistarviðburð með
skrjáfinu, eða eins og Jón Gunnar segir „kons-
ert bundinn í hlut“. Annað dæmi er verkið „Níu
bjöllur“ frá árinu 1979 eftir tónskáldið Tom
Johnson. Í verkinu ferðast flytjandinn, sem í
þessu tilviki verður Jennifer Torrence, slag-
hörpuleikari, á milli níu bjallna sem hanga í
rýminu og skapar ólík tónamynstur á göngu
sinni. Hver kafli verksins er ólíkt göngu-
mynstur á milli bjallnanna og óumflýjanlega ný
tónamynstur, enda tónlistin afmörkuð við ferð
flytjandans um rýmið. Torrence mun einnig
flytja nýtt verk eftir tónskáldið Bergrúnu Snæ-
björnsdóttur, sem í verkum sínum setur fram
óskiptan mynd- og hljóðheim.“
Óskiptur heimur þessara tveggja heima er
rauði þráður sýningarinnar Hljóðön – sýning
tónlistar. Auk þeirra áðurnefndu Jóns Gunn-
ars, Johnsons og Bergrúnar, eiga eftirtaldir
listamenn verk á sýningunni: Ásta Ólafsdóttir,
Steina, Steinunn Eldflaug Harðardóttir, Logi
Leó Gunnarsson, James Saunders, Magnús
Pálsson, Curver Thoroddsen og Einar Torfi
Einarsson.
Mismunandi hugmyndafræði
Þráinn segir alla listamennina fást við að
efnisgera tónlistina, en þeir fari ólíkar leiðir og
nálgist hljóðið út frá mismunandi hugmynda-
fræði.
„Curver leikur sér mikið með félagslega
þáttinn í tónlistinni og hefur útbúið nokkurs
konar rjóður, eða leikvöll, fyrir sköpunargleð-
ina til að brjótast fram. Hann verður leiðbein-
andi á hljóðlistasmiðju fyrir börn, sem haldin
verður í tengslum við sýninguna tvo daga í röð í
febrúar þegar vetrarfrí er í skólunum. Einnig
munu nemendur hans í hljóðlistaáfanga við
Listaháskóla Íslands standa fyrir viðburði,“
segir Þráinn.
Af öðrum viðburðum, sem tengjast sýning-
unni Hljóðön – sýning tónlistar má nefna að
Marko Ciciliani og Barbara Lüneburg leiða
saman hesta sína og flytja meðal annars saman
tónverkið „Kilgore“, sem að sögn Þráins er
tónlistarútfærsla af verki Cicilianis á sýning-
unni og er unnið inn í tölvuleikjaheim. Þá verð-
ur Skerpla, tónlistarhópur í LHÍ, og Berglind
María Tómasdóttir, með tónlistarviðburð, og á
Safnanótt verður tónlist í alls konar útfærslum,
smiðjur og viðburðir fram eftir kvöldi.
„Öll verkin sem verða frumflutt tala beint
inn í sýninguna og munu óma þar áfram í formi
myndbanda eða annars konar skrásetningar.
Viðburðadagskráin togar og teygir samhengið
og vel má líta á hana sem nokkurs konar fram-
lengingu á sýningunni.“
Þar sem Þráinn er sýningarstjóri kom í hans
hlut að velja verkin. Hann segir þau fjölbreytt,
ólík og héðan og þaðan, það elsta tæplega
hálfrar aldar gamalt, en annars sé mismunandi
hvort listamennirnir hafi átt þau í fórum sínum
eða unnið þau sérstaklega fyrir sýninguna.
Þeim sem að sýningunni koma sé margt til lista
lagt, sumir séu tónlistarmenn eða myndlistar-
menn, aðrir hvort tveggja.
Að lita tónlistina
„Listin er frábær vettvangur fyrir samstarf og
samtöl. Minn helsti drifkraftur í starfi er sam-
starf og samtal við ólíka listamenn,“ segir
Þráinn, sem auk þess að hafa haft umsjón með
tónleikaröðinni Hljóðön hefur unnið mörg
þverfagleg verkefni í samstarfi við ýmsa
þekkta listamenn.
Sjálfur nam hann tónsmíðar við Konunglega
Konservatoríið í Haag og LHÍ á árunum 2006
til 2011 og hefur tónlist hans verið flutt víða um
heim af ýmsum flytjendum og hljóðfæra-
hópum. „Sýningin Hljóðön – sýning tónlistar
speglar hvernig við getum hlustað á tónlist
með ólíkum hætti. Og hvernig má lita tónlistina
fjölmörgum ólíkum litum,“ segir sýningar-
stjórinn.
Þráinn Hjálmarsson sýningar-
stjóri hjá bjöllunum sem
gegna mikilvægu hlutverki í
tónverkinu Níu bjöllur.
Morgunblaðið/Árni Sæberg
Tónlistin verður hljóð og hlutur í senn
Á sýningunni Hljóðön – sýning tónlistar, sem opnuð verður í Hafnarborg í dag, er tónlistin sýnd í nýstárlegu ljósi. Að sögn
sýningarstjórans, Þráins Hjálmarssonar, er efnisheimi tónlistarinnar gert hærra undir höfði en alla jafna tíðkast.
Valgerður Þ. Jónsdóttir vjon@mbl.is
’Öll verkin sem verða frumflutttala beint inn í sýninguna ogmunu óma þar áfram í formimyndbanda eða annars konar
skrásetningar. Viðburðadagskráin
togar og teygir samhengið og vel
má líta á hana sem nokkurs konar
framlengingu á sýningunni.